Fjarðabyggð
Bæjarráð - 874
**1. 2404213 - Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar 2025**
|Lögð fram tillaga að breytingum á fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar fyrir 2025 - 2028 milli umræðna með lýsingu á helstu áhrifum breytinga á áætluninni á hverju ári.|
Bæjarráð samþykkir að vísa fjárhagsáætluninni til síðari umræðu í bæjarstjórn.
| |
__Gestir__
|Fjármálastjóri - 08:30|
**2. 2403158 - Rekstur málaflokka 2024**
|Lagt fram yfirlit yfir rekstur málaflokka og fjárfestingar janúar - september og skatttekjur og launakostnaður janúar - október. Einnig samandregið rekstraryfirlit og rekstrarreikningur fyrir janúar - september 2024.|
| |
__Gestir__
|Fjármálastjóri - 09:00|
**3. 2409151 - Gjaldskrá leikskóla 2025**
|Framlögð tillaga fjölskyldunefndar um breytingar á gjaldskrá leikskólagjalda frá 1. mars 2025.|
Bæjarráð samþykkir að hækka tekjuviðmið í gjaldskránni og útfæra afslátt fyrir starfsmenn leikskólanna á skráningardögum. Bæjarstjóra falið að útfæra breytingarnar í samræmi við umræður á fundinum.
Bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.
"Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í bæjarráði lýsa yfir furðu sinni með bókun fulltrúa Fjarðalistans sem lögð var fram í Fjölskyldunefnd Fjarðabyggðar við umfjöllun og samþykkt gjaldskrá leikskóla sveitarfélagsins. Pólitísk samstaða hefur verið um nauðsyn þess að bregðast við áskorunum í leikskólastarfi Fjarðabyggðar varðandi álag og mönnunarvanda og að tryggja vellíðan og velferð barna og starfsfólks. Það hefur kallað á breytt skipulag og breytta gjaldskrá leikskóla. Markmið breytinganna er draga úr álagi starfsfólks, tryggja faglegt starf og kalla eftir meiri stöðugleika í mönnun leikskóla til hagsbóta fyrir börn, foreldra og starfsfólk.
Vinna við breytingar á gjaldskrá leikskólagjalda í Fjarðabyggð hefur staðið yfir frá því í september á þessu ári hjá starfshópi um breytingar leikskólamála. Þar hafa átt sæti pólitísk kjörnir fulltrúar flokka í sveitarstjórn, ásamt leikskólastjórum og embættismönnum sveitarfélagsins. Samstaða hefur verið um um nauðsyn þess að bregðast við áskorunum í leikskólastarfi Fjarðabyggðar er varðar álag og mönnunarvanda.
Mörg sveitarfélög hafa að undanförnu unnið í sambærilegum breytingum og var fundað með þeim til að fá innsýn í hvernig til hefur tekist. Var meðal annars rætt við Skagafjörð, Ísafjarðarbæ og Hafnarfjörð varðandi þessa vinnu.
Aukið álag og mönnunarvandi í leikskólunum hefur verið vaxandi áskorun sem meðal annars skýrist af breytingum, á síðustu árum, í kjarasamningsumhverfi starfsmanna á leikskólum. Því var það meginmarkmið í vinnu þessari að útfæra breytingar þessar þannig að í þeim fælist eftirfarandi markmið:
Að skapa traustara skipulag og betra starfsumhverfi í leikskólum sveitarfélagsins.
Að draga úr álagi á starfsfólk og tryggja faglegt starf.
Að tryggja stöðugleika í mönnun til hagsbóta fyrir börn, foreldra og starfsfólk.
Að stuðla að vellíðan og velferð barna og starfsfólks.
Um leið væri horft til þess að breytingar á gjaldskránni væru með þeim hætti að tillit væri tekið til barnafjölskyldna og sérstaklega gætt þess að tekjutenging gripi þá sem lægstar tekjur hafa og þurfa því að nýta alla daga vistunar vegna vinnu sinnar. Það hefur verið meginmarkmið sveitarfélagsins að standa með fjölskyldufólki og styðja þá sem það þurfa og á því er engin breyting nú þó lesa megi slíkt úr bókunum og tillögu Fjarðalistans í tengslum við þetta mál.
Með það að leiðarljósi leggjum við megináherslu á eftirfarandi:
Almenn vistunargjöld fyrir 6 tíma vistun lækka umtalsvert, eða um 30%, til að hvetja til styttri viðveru barna og minnka álag á þau.
Tekjutengdir afslættir verða hækkaðir verulega og reiknast af dvalargjöldum, það er almennu vistunargjaldi, viðbótar vistunargjaldi og gjaldi vegna skráningardaga. (þetta er breyting frá fyrri gjaldskrá) ásamt því að systkinaafslættir eru áfram innan kerfisins.
Skráningardagar gefa foreldrum sveigjanleika til að spara gjöld og starfsfólki svigrúm til að nýta styttingu vinnuviku og taka út orlofsdaga sem það á inni.
Eins og verið hefur þá er hádegisverður barna gjaldfrjáls á leikskólum sveitarfélagsins.
Frístundastyrkur barna hækkar úr 10.000 kr. í 18.000 kr., sem er 80% hækkun.
Álagningarhlutfall fasteignagjalda verður lækkað með hagsmuni barnafjölskyldna í huga.
Núverandi meirihluti er almennt að leggja til að gjaldskrár hækki um 2,5% í gjaldskrám sem
snúa að barnafjölskyldum. Önnur sveitarfélög er almennt með að minnsta kosti 3,5% gjaldskrárhækkanir og á það einnig við um þau sveitarfélög þar sem framboð sem fulltrúar Fjarðalistans tilheyra eru við stjórnvölin.
Við viljum jafnframt ítreka að breytingar þessar eru gerðar til að tryggja að okkar góðu leikskólar verði áfram sterkar menntastofnanir og um leið góðir og eftirsóttir vinnustaðir.
Áðurnefndar breytingar á gjaldskrám munu taka gildi 1.mars nk til að gefa fræðsluyfirvöldum í Fjarðabyggð rými til að kynna þær vel fyrir foreldrum og er það von okkar að þær skili árangri þannig að ekki þurfi að koma til fjölgun lokunardaga í stað skráningardaga enda er það okkar skoðun að slíkt sé erfiðara fyrir fjölskyldur. Síðan er eðlilegt að árangur breytinga þessara verði metin næsta haust.
Einkennilegast í þessu máli er vinkilbeygja Fjarðalistans. Ítrekað hefur oddviti Fjarðalistans lýst því yfir að nauðsynlegt sé að bregðast við áskorunum í starfsemi leikskólans og raunverulegra aðgerða sé þörf. Þegar svo slíkar aðgerðir hafa verið í mótaðar í fullri sátt, að við héldum, þá ákveður hann að skila auðu. Það er miður en breytir ekki verkefninu, sem er að styrkja starfsumhverfi skólanna, og við munum halda áfram á þeirri braut."
Bókun fulltrúa Fjarðalistans:
"Fjarðalistinn fagnar umræðu um nauðsyn þess að bregðast við áskorunum í leikskólastarfi Fjarðabyggðar, sérstaklega varðandi mönnunarvanda og vellíðan barna og starfsfólks. Hins vegar teljum við mikilvægt að vekja athygli á nokkrum atriðum sem ekki fá nægjanlega umfjöllun í bókun meirihlutans.
Þrátt fyrir fullyrðingar meirihlutans um að breytingarnar hafi verið unnar í sátt, hefur Fjarðalistinn bent á mikilvægi þess að tryggja breiðara samráð við foreldra, sem eru lykilhagsmunaaðilar í þessu máli sem og starfsmenn. Við teljum að kynning á þessum breytingum og áhrifum þeirra hafi verið ófullnægjandi fram að þessu, og leggjum áherslu á að kynningin verði í framtíðinni betur útfærð til að tryggja gagnsæi og traust.
Þó að tekjutengingar og lækkun vistunargjalda fyrir 6 tíma vistun séu jákvæðar breytingar, vekjum við athygli á því að heildarálögur á fjölskyldur, sérstaklega þær sem nýta sér fulla vistun vegna vinnu, aukast umtalsvert. Þetta skapar aukið fjárhagslegt álag á þá hópa sem þegar glíma við mikil mánaðarleg útgjöld vegna leikskólagjalda.
Fjarðalistinn telur að leikskólamál séu jafnréttismál, þar sem góð leikskólaþjónusta er forsenda þess að foreldrar geti tekið virkan þátt í atvinnulífi. Gjaldskrárbreytingar sem hafa í för með sér verulegar auknar álögur á hluta foreldra grafa undan þessari grundvallarforsendu.
Fullyrðingar meirihlutans um „vinkilbeygju“ Fjarðalistans lýsa misskilningi á afstöðu okkar. Við höfum frá upphafi bent á mikilvægi raunverulegra aðgerða til að bregðast við mönnunarvanda og álagi í leikskólastarfi. Hins vegar er það mat okkar að heildartillögur meirihlutans, sérstaklega þær sem fela í sér auknar fjárhagslegar byrgðar á fjölskyldur, séu ekki nægilega ígrundaðar og taki ekki nægilegt tillit til allra hagsmunaaðila. Við viljum áfram vinna að úrbótum í leikskólastarfi með áherslu á jafnvægi milli fjárhagslegra lausna og félagslegra markmiða.
Við fögnum því að meirihlutinn hyggist meta árangur breytinganna næsta haust. Hins vegar leggjum við áherslu á að slíkt mat verði gagnsætt og unnið í samráði við alla hagsmunaaðila, þar á meðal foreldra og starfsfólk leikskólanna.
Fjarðalistinn mun halda áfram að standa vörð um hagsmuni barnafjölskyldna í Fjarðabyggð og leggja áherslu á jafnræði, gagnsæi og skynsamlega útfærslu breytinga sem miða að því að bæta leikskólastarf í sveitarfélaginu."
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, Ragnar Sigurðsson og Jón Björn Hákonarson samþykkja gjaldskrána með þeim breytingum sem lagðar hafa verið til. Fulltrúi Fjarðalistans, Stefán Þór Eysteinsson, greiðir atkvæði gegn tillögunni, en styður hækkun tekjuviðmiða.
Ný gjaldskrá tekur gildi þann 1. mars 2025
| |
__Gestir__
|Fjármálastjóri - 09:30|
**4. 2411166 - Samstarfssamningur um Breiðdalssetur - endurnýjun**
|Framlögð drög að samstarfssamningi milli Rannsóknarmiðstöðvar Háskóla Íslands og Fjarðabyggðar um framlengdan samning sem tekur við af samningi sem gerður var um framlag til Breiðdalsseturs frá árinu 2021. Samningurinn rann út 30. apríl 2024.|
Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að ganga frá endurnýjun á samstarfssamningnum og undirritun hans.
**5. 2411157 - Boð á samráðsfund, eftirlit með hollustuháttum,mengunarvörnum og matvælum**
|Framlagt boð á samráðsfund stýrihóps umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um fyrirkomulag eftirlits með hollustuháttum, mengunarvörnum og matvælum.|
Fulltrúar í bæjarráði ásamt bæjarstjóra mæta á fundinn 10. desember fyrir hönd Fjarðabyggðar.
**6. 2411183 - Boðun aðalfundar Skólaskrifstofu Austurlands 13.12. 2024 kl. 1400**
|Stjórn Skólaskrifstofu Austurlands hefur boðað til aðalfundar föstudaginn 13. desember 2024 kl. 14:00 á skrifstofu Múlaþings á Egilsstöðum.|
Á fundinum verður tekin til afgreiðslu tillaga stjórnar um að Skólaskrifstofunni verði slitið.
Bæjarstjóri mun fara með umboð Fjarðabyggðar á fundinum, og taka þar þær ákvarðanir sem þarf.
Vísað til staðfestingar í bæjarstjórn.
| |
__Gestir__
|Fjármálastjóri - 10:00|
**8. 2411022F - Fjölskyldunefnd - 19**
|Framlögð til umfjöllunar og afgreiðslu fundargerð fjölskyldunefndar frá 25. nóvember.|
**8.1. 2411092 - Umgengnisreglur sundlauga Fjarðabyggðar**
**8.2. 2410176 - Starfsáætlanir og skólanámskrár 2024-2025**
**8.3. 2409151 - Gjaldskrá leikskóla 2025**
**9. 2411026F - Fjölskyldunefnd - 20**
|Framlögð til umfjöllunar og afgreiðslu fundargerð fjölskyldunefndar frá 28. nóvember.|
**9.1. 2409151 - Gjaldskrá leikskóla 2025**
**7. 2401142 - Fundargerðir stjórnar Sambands Íslenskra sveitarfélaga 2024**
|Fundargerð 956. 957. og 958. funda stjórnar Sambandsins lagðar fram til kynningar.|