Reykjavíkurborg
Borgarstjórn - Borgarstjórn 04.02.2025
==
==
[Borgarstjórn - Borgarstjórn 04.02.2025
](/fundargerdir/borgarstjorn-borgarstjorn-04022025)
**Borgarstjórn**
Ár 2025, þriðjudaginn 4. febrúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:08. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir, Birkir Ingibjartsson, Björn Gíslason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Guðný Maja Riba, Heiða Björg Hilmisdóttir, Helga Þórðardóttir, Helgi Áss Grétarsson, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Marta Guðjónsdóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Sabine Leskopf.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
**Þetta gerðist:**
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram tillögu að breytingu á dagskrá fundarins þar sem lagt er til að tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kostnaðarmat vegna Álfabakka verði nr. 2 á dagskrá fundarins. Dagskrárbreytingartillagan er felld með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn sjö atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins. Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Samkvæmt 27. grein sveitarstjórnarlaga og 34. grein samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar eiga borgarfulltrúar rétt á að tekið verði á dagskrá borgarstjórnarfundar hvert það málefni sem varðar hagsmuni sveitarfélagsins. Ef flokkur ber fram fleiri en eitt mál á fundi borgarstjórnar er eðlilegt að hann ráði í hvaða röð þau eru tekin fyrir. Í þessu tilviki hefur forseti kosið að setja tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, hið alvarlega Álfabakkamál, svo aftarlega á dagskrána að mjög ólíklegt er að hún verði tekin til umræðu og afgreiðslu á fundinum. Óeðlilegt er að meirihluti borgarstjórnar taki sér það vald að raða málum á dagskrá eftir pólitískum hentugleika eins og hér hefur gerst. Tilgangurinn er greinilega sá að koma í veg fyrir umræðu um mál á fundinum sem meirihlutanum finnst óþægilegt og skapar það slæmt fordæmi fyrir stjórn funda borgarstjórnar.
Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Beiðni barst frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins að raða málum á eina vegu og ákveðið var að verða við því. Í kjölfarið barst beiðni frá öðrum fulltrúum Sjálfstæðisflokksins um að raða málum á aðra vegu. Erfitt getur talist að verða við beiðnum allra fylkinga innan Sjáfstæðisflokksins á einum og sama tímanum og er flokkurinn vinsamlegast beðinn um að kljást við innri ágreining með uppbyggilegri aðferðum. Hvað varðar fundarsköp þá segir í 10. grein samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar að það er forseti borgarstjórnar sem setur upp dagskrá borgarstjórnarfunda í samráði við borgarstjóra og forsætisnefnd. Hvergi kemur það fram í samþykktum né sveitarstjórnarlögum að einstaka borgarstjórnarflokkar geti gripið fram fyrir hendur forseta á meðan öll þau mál eru tekin á dagskrá sem óskað er eftir. Öll þau mál sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu eftir að færu á dagskrá eru á dagskrá. Í samþykktri starfsáætlunar forsætisnefndar fyrir borgarstjórn kemur fram að fundurinn 4. febrúar er tileinkaður atvinnumálum og voru allir borgarstjórnarflokkar beðnir um að setja mál á dagskrá sem tengdust atvinnulífi höfuðborgarinnar og var málum raðað í samræmi við það.
Fram fer umræða um atvinnulífið í borginni, stöðu, áherslur og tækifæri.
- Kl. 14:10 tekur Skúli Helgason sæti á fundinum og Birkir Ingibjartsson víkur.
- Kl. 14:55 víkur Alexandra Briem af fundinum.
- Kl. 15:05 tekur Magnús Davíð Norðdahl sæti á fundinum. MSS22010337
Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Umræða um atvinnumál í borgarstjórn dró fram fjölbreytta atvinnustarfsemi í Reykjavík. Sérstaklega var rætt um nýsköpun, ferðaþjónustu, miðborgarmál og atvinnulóðir borgarinnar svo eitthvað sé nefnt. Framundan er áframhaldandi vinna við að auka enn frekar samkeppnishæfni Reykjavíkur hvort sem er fyrir fólk eða fyrirtæki og samhliða því uppfæra ferðamálastefnu sem rennur út árið 2025. Reykjavík hefur vaxið mjög sem áfangastaður. Mikilvægt er að huga að markaðsverkefnum í samstarfi við Íslandsstofu og Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins og halda vörumerki borgarinnar á lofti erlendis með verkefnum eins og Meet in Reykjavík, Inspired by Iceland og Visit Reykjavík sem skapa dýrmætar tekjur fyrir fyrirtæki borgarinnar.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja ríka áherslu á að auka samkeppnishæfni höfuðborgarinnar gagnvart bæði fólki og fyrirtækjum. Skapa þarf vinveitt umhverfi fyrir atvinnulíf, með auknu úrvali atvinnulóða, hagstæðara skattaumhverfi og sveigjanlegri stjórnsýslu. Það er sjálfstætt áhyggjuefni hve lítill hluti af stærstu fyrirtækjum landsins starfar nú í höfuðborginni, en síðustu ár hefur orðið gríðarlegur fyrirtækjaflótti úr Reykjavík. Höfuðborgin má ekki dragast aftur úr í samkeppni um fólk, fyrirtæki og hugmyndir og því mikilvægt að gera betur svo ryðja megi veginn fyrir þá sem vilja sækja fram.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Í almennri umræðu um stöðu atvinnulífs í Reykjavík vilja borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands beina sjónum sínum að réttindabrotum gegn vinnandi fólki á íslenskum vinnumarkaði. Slík réttindabrot eiga sér stað hér á landi í tengslum við harkhagkerfið (e. gig economy), gul verkalýðsfélög og þar sem slæm framkoma í garð verkafólks í gegnum starfsmannaleigur á sér stað. Í nýlegum fréttaskýringaþætti Kveiks um vinnumansal og misbeitingu á íslenskum vinnumarkaði er fjallað um fjölda starfsmanna frá starfsmannaleigum og hvernig réttindi þeirra eru tryggð. Í svari Reykjavíkurborgar kom fram að ekki væri sérstakt eftirlit með réttindum þess hóps sem kemur í gegnum starfsmannaleigur og að borgin væri því ekki með upplýsingar um fjölda starfandi hjá fyrirtækjum í verkefnum Reykjavíkurborgar sem kæmu í gegnum starfsmannaleigur. Sósíalistar telja þetta ganga gegn markmiðum borgarinnar um keðjuábyrgð. Mikilvægt er að Reykjavíkurborg nýti rödd sína til að fordæma brot á vinnumarkaði og sé meðvituð um þátttöku sína sem atvinnurekandi.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins styður heilshugar alla þá áhrifaþætti sem þarf til þess að efla atvinnulíf í borginni. Það eru mikil tækifæri fólgin í bæði nýsköpun og frumkvöðlastarfi þegar kemur að því að efla atvinnulíf og verðmætasköpun. Þrátt fyrir stórhuga áætlanir um uppbyggingu nýsköpunar- og þekkingarkjarna á vegum borgarinnar, er löngu þekkt að opinber nýsköpun skilar mun minni árangri en sú nýsköpun og frumkvöðlastarf sem leitt er af fyrirtækjum á markaði. Þess vegna er það einmitt hlutverk hins opinbera að hlúa að nýsköpun í atvinnulífinu í stað þess að standa í því sjálft. Í Reykjavík er nú þegar blómstrandi atvinnulíf sem eflaust á eftir að blómstra enn frekar samhliða þeirri fólksfjölgun sem átt hefur sér stað undanfarin ár og ekki sér fyrir endann á. Með uppbyggingu nýrra hverfa og skynsamlegri þéttingu þar sem byggð er fyrir, má gera ráð fyrir enn betri borg fyrir alla í framtíðinni.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að vinna breytingar á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 þannig að flugvallarstarfsemi og tengd atvinnustarfsemi í Vatnsmýri verði tryggð út skipulagstímabilið. Samhliða verði gripið til aðgerða til að tryggja rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar en flugvallarsvæðið er stórt atvinnusvæði í borginni, hvar starfa mörg hundruð manns við flugstarfsemi og aðra afleidda starfsemi.
Greinargerð fylgir tillögunni.
- Kl. 16:35 víkur Aðalsteinn Haukur Sverrisson af fundinum og Þorvaldur Daníelsson tekur sæti.
Samþykkt með 20 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Flokks fólksins gegn atkvæði borgarfulltrúa Vinstri grænna að vísa tillögunni til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25020005
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks telja brýna þörf á að unnar verði nauðsynlegar breytingar á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 svo festa megi flugstarfsemi í sessi í Vatnsmýri og standa vörð um þá umfangsmiklu atvinnustarfsemi sem fram fer á svæðinu út skipulagstímabilið. Með því að tryggja heimild til starfsemi flugvallar í Vatnsmýri til 2040, verður jafnframt unnt að tryggja að hæð mannvirkja og gróðurs í nágrenni flugvallarsvæðisins og á áhrifasvæði flugvallarins, verði háð öryggiskröfum vegna flugtaks og lendinga sem settar eru í skipulagsreglum flugvalla. Með aðalskipulagsbreytingu mætti jafnframt kalla fram nauðsynlega uppfærslu á þeim áætlunum sem búa að baki vaxtarmörkum höfuðborgarsvæðisins, en þær gera ráð fyrir uppbyggingu 7.500 íbúða á flugvallarsvæðinu fyrir 2040. Vegna þess að innanlandsflugi hefur ekki verið fundinn nýr staður, og miðstöð innanlandsflugs verður óhjákvæmilega enn í Vatnsmýri út skipulagstímabilið, verða engar íbúðir byggðar á flugvallarsvæðinu fyrir árið 2040. Mikilvægt er að finna þeim íbúðafjölda nýjan stað í borginni, ekki síst í ljósi viðvarandi húsnæðisskorts hérlendis.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins er sammála því að tryggja verði atvinnustarfsemi og öryggi innanlandsflugs á Reykjavíkurflugvelli. Það að stefnt hafi verið að færslu flugvallarins fyrir árið 2032 samkvæmt samkomulagi milli borgarstjóra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra árið 2019, verður nú að taka til greina að forsendur þess samnings hafa breyst mikið. Að ætla sér að byggja flugvöll í næsta nágrenni við nýlega virkt jarðhræringa- og eldgosasvæði hlýtur að teljast galin hugmynd í dag. Það verður að tryggja öryggi flugvallarins og sjúkraflugs. Nú er stærsta spítalasvæði landsins að stórum hluta risið í næsta nágrenni við Reykjavíkurflugvöll og það hlýtur að vera mikilvægt að bæta til muna aðgengi landsbyggðarinnar að nauðsynlegum heilbrigðisstofnunum. Samkvæmt landslögum eiga landsmenn jafnan rétt á aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Á flugvallarsvæðinu er mikil og fjölbreytt atvinnustarfsemi sem kemur inn á mörg svið rekstrar og þjónustu. Það er þess vegna alveg ljóst að endurskoða þarf allar áætlanir og samþykktir varðandi flugvallarsvæðið – flugvöllurinn í Reykjavík verður því að fá að þróast áfram á meðan enginn annar kostur er í stöðinni og sú byggð sem þarna er fyrirhuguð þarf að taka mið af því.
Fylgigögn
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að láta gera samantekt og greiningu á árangursríkum leiðum til að stuðla að því að þjónusta og lágvöruhverfisverslun nái fótfestu í sem flestum hverfum borgarinnar í göngufæri við sem allra flest. Það sé einnig til þess fallið að styðja við að notkun nýrra atvinnurýma innan hverfanna nýtist íbúum sem best og fylgja eftir stefnu aðalskipulags Reykjavíkur um kaupmanninn á horninu sem og atvinnu- og nýsköpunarstefnu borgarinnar. Fordæmi erlendis frá verði skoðuð og greind í samhenginu sem og niðurstöður á sameiginlegum samráðsfundi borgarinnar, Samtaka verslunar og þjónustu og annarra hagaðila sem hefur verið í bígerð. Einnig er lagt til að atvinnu- og borgarþróunarteymi á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara verði falið að vinna verkefnið ásamt fjármagni til framkvæmdar.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Frestað. MSS25020001
Fylgigögn
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að skora á ríkisstjórn Íslands að láta framkvæma víðtækt mat á færniþörf á íslenskum vinnumarkaði, sem tekur sérstaklega fyrir breið áhrif þess fjölda ferðamanna sem sækir landið heim á íslenskt samfélag og almannaþjónustu.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Vísað til meðferðar borgarráðs.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25020002
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins telur mikilvægt að að gert verði mat á færniþörf á íslenskum vinnumarkaði sem tekur sérstaklega fyrir breið áhrif þess fjölda ferðamanna sem sækir landið heim. Það er athyglisvert að sú færniþörf sem metin er reglulega af Hagstofunni er eingöngu gerð út frá mannfjöldaspám. Færniþörf á vinnumarkaði vísar til þeirrar, þekkingar og færni sem atvinnulífið krefst af starfsfólki, bæði nú og til framtíðar. Þetta hugtak er notað til að greina hvaða færni er eftirsótt og hvaða skortur gæti verið á vinnumarkaðinum. Aukinn fjöldi ferðamanna hefur haft áhrif á heilbrigðisþjónustuna í landinu og þá sérstaklega utan höfuðborgarsvæðisins en þar er þjónustan viðkvæm. Það er mikilvægt að brugðist verði við þessari þörf og heilbrigðiskerfið verði eflt og þá sérstaklega á landsbyggðinni. Fólki er tíðrætt um að það þurfi að byggja upp innviði eins og vegi vegna fjölda ferðamanna sem er rétt en það þarf líka að huga að samfélagslegum innviðum eins og heilbrigðisþjónustu, skólakerfinu, almannavörnum og fleira. Það tekur tíma að tryggja mönnun í þessum innviðum. Flokkur fólksins tekur undir það að til þess að opinber stjórnvöld geti gert góðar framtíðaráætlanir um þróun og uppbyggingu þarf að liggja fyrir hvaða áskorunum samfélagið stendur frammi fyrir á hverjum tíma og hvert stefnir.
Fylgigögn
Umræðu um verðmætasköpun listamanna í höfuðborginni er frestað. MSS25020003
Fylgigögn
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að koma Elliðaárdalnum á framfæri sem góðum og áhugaverðum áfangastað og þannig væri hægt að skapa fleiri atvinnutækifæri í ferðaþjónustu í dalnum.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Vísað til meðferðar forsætisnefndar.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.
- Kl. 18:10 víkur Magnea Gná Jóhannsdóttir af fundinum og Unnur Þöll Benediktdóttir tekur sæti. MSS25020004
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins leggur til að Elliðaárdalnum verði komið á framfæri sem góðum og áhugaverðum áfangastað. Það er staðreynd að flestir ferðamenn sem hingað koma eru fyrst og fremst að njóta náttúru Íslands. Elliðaárdalur er einstakt útivistarsvæði Reykvíkinga sem sameinar náttúrufegurð, sögu og fjölbreytta möguleika til útivistar. Hægt væri að kynna nokkurs konar hringferð um Elliðaárdalinn þar sem ferðamenn geta notið útivistar í hreinni og fallegri náttúru, skoðað Árbæjarsafn, Rafstöðina og notið þjónustu veitingahúsa og gætu svo lokað hringnum með sundlaugarferð í Árbæjarlaug sem státar af einstöku útsýni yfir Elliðaárdalinn og borgina. Fulltrúi Flokks fólksins sér fyrir að hægt væri að byrja á því að kynna þennan hring fyrir farþegum skemmtiferðaskipa. Í nýútgefinni skýrslu þar sem fjallað er um stefnu um þolmörk og móttöku skemmtiferðaskipa í Reykjavík er lögð áhersla á að beina gestum á mismunandi svæði innan borgarmarka til að dreifa álagi sem hlýst af komu farþega. Með því að gera Elliðaárdalinn að lifandi áfangastað sem sameinar náttúru, sögu og menningu væri hægt að skapa fleiri atvinnutækifæri í ferðaþjónustu í dalnum.
Fylgigögn
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 30. janúar 2025, varðandi stefnu um þolmörk og móttöku skemmtiferðaskipa í Reykjavík, ásamt fylgiskjölum, sbr. 1. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. janúar 2025 og 3. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 31. janúar 2025.
Samþykkt.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25010171
Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Í þessari nýju stefnu um þolmörk og móttöku skemmtiferðaskipa er lögð er áhersla á sjálfbærni og jákvæð áhrif skemmtiferðaskipa til framtíðar. Stefnan mætir áhyggjum Reykvíkinga með áherslu á minni mengun, aukna sjálfbærni og viðmið um fjölda skemmtiferðaskipa. Framtíðarsýnin er að áfangastaðurinn Reykjavík sé leiðandi í sjálfbærri þróun, framúrskarandi þjónustu og einstakri náttúru- og menningarupplifun þegar kemur að móttöku skemmtiferðaskipa á norðurslóðum. Með áherslu á sjálfbæra þróun stefnir Reykjavík að því að skapa jafnvægi milli efnahagslegs ávinnings og umhverfisverndar, þar sem hagsmunir íbúa, gesta og fyrirtækja eru hafðir að leiðarljósi. Vinnan dró einnig fram ýmislegt sem við viljum leggja áherslu á til framtíðar og beina þeim skilaboðum til stjórnvalda að gerðar verði viðeigandi viðbragðsáætlanir fyrir áfangastaði í heild og að skoða verði álag og þolmörk í samhengi við fjölda ferðamanna á til dæmis höfuðborgarsvæðinu og helstu áfangastöðum á suðvesturhorninu á sama degi. Við viljum einnig þakka stýrihópnum og verkefnastjórn fyrir góða og ítarlega vinnu. Hér er Reykjavíkurborg komin með ítarlegar samandregnar upplýsingar um skemmtiferðaskip og þann hluta ferðaþjónustunnar.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins fagnar nýrri stefnu um þolmörk og móttöku skemmtiferðaskipa. Lögð er áhersla á sjálfbærni og að stuðla að jákvæðum áhrifum skemmtiferðaskipa til framtíðar. Umræða um fjölda skemmtiferðaskipa í Reykjavík hefur oft verið nokkuð neikvæð. Helstu áhyggjur fólks eru vegna umhverfisáhrifa og álags á innviði borgarinnar. Þessi umræða hefur leitt til þess að sumir móttökustaðir hafa sett takmarkanir á fjölda farþega sem mega koma í land á sama tíma til að draga úr álagi á innviði. Í stefnunni er lögð áhersla á að beina gestum á mismunandi svæði innan borgarmarka til að dreifa álagi sem hlýst af komu farþega. Tillaga Flokks fólksins um að gera Elliðaárdalinn að spennandi áfangastað sem sameinar náttúru, sögu og menningu og kynna áfangastaðinn sérstaklega fyrir farþegum skemmtiferðaskipa rímar vel við þessa stefnu. Mikilvægt er að skapa jafnvægi milli efnahagslegs ávinnings og umhverfisverndar. Þá verður að hafa hagsmuni borgarbúa, gesta og fyrirtækja að leiðarljósi. Það kom fulltrúa Flokks fólksins á óvart hversu mikill fjárhagslegur ávinningur er af komu skemmtiferðaskipa á íslenskt hagkerfi.
Fylgigögn
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að lækka álagningarhlutfall fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði fyrir árið 2025, þannig að tekjur borgarsjóðs af álögðum fasteignagjöldum hækki ekki milli áranna 2024 og 2025. Lagt er til að álagningarhlutfall fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði vegna ársins 2025 verði sem hér segir: Hlutfall fasteignaskatts skv. c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 með síðari breytingum verði 1,52%.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að fresta málinu.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Fylgigögn
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela fjármála- og áhættustýringarsviði Reykjavíkurborgar, í samráði við umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar, að kostnaðarmeta mögulegar sviðsmyndir tengdar framtíð stálgrindarhússins við Álfabakka. Þær sviðsmyndir sem skulu metnar eru meðal annars: 1. Flutningur húsnæðisins á aðra hentuga lóð, sem ekki er í miðri íbúðabyggð, ásamt öllum tilheyrandi kostnaði, svo sem bótagreiðslum, byggingarréttargjöldum, flutnings- og lögfræðikostnaði. 2. Finna vöruhúsinu næst íbúðablokkinni annan stað. 3. Óbreytt ástand þar sem húsið stendur áfram á núverandi stað, með tilliti til málaferla og lögfræðikostnaðar tengdum þeim, hugsanlegra bótagreiðslna og áhrifa á umhverfið og nágrenni. 4. Breytingar á húsnæðinu sem miða að því að lágmarka áhrif þess á umhverfið og lífsgæði íbúa í nágrenninu. 5. Aðrar sviðsmyndir sem unnt er að leggja fram til lausnar málinu.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að fresta málinu.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. USK24120135
Fylgigögn
Lagt til að Heiða Björg Hilmisdóttir taki sæti í almannavarnarnefnd í stað Dags B. Eggertssonar.
Samþykkt. MSS22060051
Lagt til að Guðný Maja Riba taki sæti sem varafulltrúi í forsætisnefnd í stað Söru Bjargar Sigurðardóttur.
Samþykkt MSS22060040
Lagt til að Erlingur Sigvaldason taki sæti í innkaupa- og framkvæmdaráði í stað Pawels Bartoszek. Jafnframt er lagt til að Birkir Ingibjartsson taki sæti sem varafulltrúi í innkaupa- og framkvæmdaráði í stað Söru Bjargar Sigurðardóttur.
Samþykkt. MSS22060064
Lagt til að Aðalsteinn Haukur Sverrisson og Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir taki sæti í menningar- og íþróttaráði í stað Sabine Leskopf og Pawels Bartoszek. Jafnframt er lagt til að Ólöf Helga Jakobsdóttir taki sæti sem varafulltrúi í menningar- og íþróttaráði í stað Birkis Ingibjartssonar.
Samþykkt. MSS22060045
Lagt til að Skúli Helgason taki sæti í skóla- og frístundaráði í stað Sabine Leskopf. Jafnframt er lagt til að Ólöf Helga Jakobsdóttir og Pétur Marteinn U. Tómasson taki sæti sem varafulltrúar í skóla- og frístundaráði í stað Stein Olav Romslo og Söru Bjargar Sigurðardóttur.
Samþykkt. MSS22060048
Lagt til að Sara Björg Sigurðardóttir taki sæti í stafrænu ráði í stað Skúla Helgasonar. Jafnframt er lagt til að Birkir Ingibjartsson taki sæti sem varafulltrúi í stafrænu ráði í stað Söru Bjargar Sigurðardóttur.
Samþykkt. MSS22060158
Lagt til að Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir taki sæti í umhverfis- og skipulagsráði í stað Pawels Bartoszek.
Samþykkt. MSS22060046
Lagt til að Sabine Leskopf taki sæti í velferðarráði í stað Heiðu Bjargar Hilmisdóttir. Jafnframt er lagt til að Sabine verði formaður ráðsins
Samþykkt. MSS22060049
Lagt til að Birkir Ingibjartsson taki sæti í heilbrigðisnefnd í stað Hjálmars Sveinssonar. Jafnframt er lagt til að Pétur Marteinn U. Tómasson taki sæti sem varafulltrúi í heilbrigðisnefnd í stað Ellenar Calmon.
Samþykkt. MSS22060075
Lagt til að Sara Björg Sigurðardóttir taki sæti í mannréttinda- og ofbeldisvarnarráði í stað Árelíu Eydísar Guðmundsdóttur. Jafnframt er lagt til að Ólöf Helga Jakobsdóttir taki sæti sem varafulltrúi í stað Ástu Bjargar Björgvinsdóttur.
Samþykkt. MSS22060044
Lagt til að Erlingur Sigvaldason taki sæti í íbúaráði Árbæjar og Norðlingaholts í stað Jóhönnu Dýrunnar Jónsdóttur.
Samþykkt. MSS22060055
Lagt til að Steindór Örn Gunnarsson taki sæti sem varafulltrúi í íbúaráði Breiðholts í stað Alondru Veronicu V. Silva Muñoz.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS22060056
Lagt til að Berglind Eyjólfsdóttir taki sæti sem varafulltrúi í íbúaráði Grafarholts- og Úlfarsárdals í stað Margrétar Sverrisdóttur.
Samþykkt. MSS22060057
Lagt til að Þorleifur Örn Gunnarsson taki sæti í íbúaráði Kjalarness í stað Ellenar Calmon. Jafnframt er lagt til að Ellen Calmon taki sæti sem varafulltrúi í íbúaráði Kjalarness í stað Ingiríðar Halldórsdóttur.
Samþykkt. MSS22060060
Lagt til að Stefán Petterson taki sæti í íbúaráði Laugardals í stað Þorleifs Arnar Gunnarssonar. Jafnframt er lagt til að Anna Sonde taki sæti sem varafulltrúi í stað Sabine Leskopf.
Samþykkt. MSS22060061
Lagt til að Berglind Eyjólfsdóttir taki sæti sem varafulltrúi í öldungaráði í stað Ellenar Calmon.
Samþykkt. MSS22060068
Lagt til að Pétur Marteinn U. Tómasson taki sæti sem varafulltrúi í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur í stað Söru Bjargar Sigurðardóttur.
Samþykkt. MSS22090052
Lagt til að Hjálmar Sveinsson taki sæti í svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins í stað Pawels Bartoszek.
Samþykkt. MSS22060151
Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 23. og 30. janúar.
9. liður fundargerðarinnar frá 30. janúar; samþykkt um gatnagerðargjöld, er samþykktur með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn átta atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna. Borgarfulltrúar Sósíalistaflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
12. liður fundargerðarinnar frá 30. janúar; gjaldskrá meindýravarna er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.
16. liður fundargerðarinnar frá 30. janúar; breytingar á leiguverði Félagsbústaða er samþykktur með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins og Flokks fólksins. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25010002
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. janúar:
Gífurleg hækkun gatnagerðargjalda felur í sér viðbótarskatt á húsbyggjendur og hefur neikvæð áhrif á húsnæðismarkaðinn. Hækkunin er olía á verðbólgubálið en sem dæmi hækka gatnagerðargjöld um 85% á íbúðir í fjölbýlishúsi, 33% á parhús/raðhús og 38% á atvinnuhúsnæði. Í raun er um meiri hækkun að ræða því með breytingunni verður einnig tekin upp gjaldtaka á bíla- og hjólageymslur ofanjarðar. Mikil hækkun gatnagerðargjalda bætist við önnur gjöld og kvaðir, sem húsbyggjendur í Reykjavík inna nú þegar af hendi. Ekkert sveitarfélag á landinu leggur eins há gjöld á nýjar íbúðir og Reykjavíkurborg. Nú þegar eru innheimt há byggingarréttargjöld og með hækkun gatnagerðargjalda eru álögurnar enn auknar. Slíkt hefur að sjálfsögðu áhrif á íbúðaverð í borginni til hækkunar. Umrædd gjaldahækkun kemur fram á sama tíma og miklar umræður eiga sér stað um hvernig unnt sé að draga úr byggingarkostnaði til að auðvelda uppbyggingu á íbúðarhúsnæði. Undanfarinn áratug hafa íbúðir hækkað svo í verði í borginni að það er varla á færi venjulegs launafólks að festa kaup á nýrri íbúð, hvað þá láglaunafólks.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun undir 9. og 16. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. janúar:
9. liður, samþykkt um gatnagerðargjöld. Gjaldtaka til uppbyggingar innviða verður að fara fram með sanngjörnum hætti, þannig að þau sem eru aflögufær beri kostnaðinn. Kostnaður má ekki lenda með ósanngjörnum hætti á almenningi. 16. liður, breytingar á leiguverði Félagsbústaða. Fulltrúar Sósíalista samþykkja ekki hækkun á leigu hjá leigjendum Félagsbústaða. Um er að ræða leigjendur sem að stórum hluta hafa lítið á milli handanna enda um að ræða íbúðir ætlaðar þeim sem eru undir ákveðnum eigna- og tekjumörkum. Leigan hefur tekið mánaðarlegum breytingum í takt við breytingar á vísitölu neysluverðs, þrátt fyrir að tekjur leigjenda hafi ekki gert það. Það á ekki að vera hlutverk fátækra leigjenda að viðhalda rekstri félagsins, aðrar aðgerðir þurfa að koma til. Þá gengur ekki að draga úr kaupum á íbúðum líkt og gert er ráð fyrir hér þar sem margir eru í þörf fyrir húsnæði. Endurskoða þarf skipulag Félagsbústaða þannig að ekki verði gert ráð fyrir því að leigjendur beri einna helst ábyrgð á því að viðhalda fjárhagslegri sjálfbærni félagsins.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. janúar:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill taka það fram að þrátt fyrir að hækkun gatnagerðagjalda sé til þess að samræma orðatak og efnistök við ríkjandi lög, er hann á móti öllum þeim hækkunum sem bitna munu á borgarbúum. Það má einnig taka það fram að þó að hækkun gatnagerðagjalda sé ekki langt fram úr því sem tíðkast í nágrannasveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, mun þessi hækkun mögulega hafa áhrif á byggingarkostnað sem ekki er á bætandi miðað við annan kostnað sem á húsbyggjendur er lagður. Þess vegna vill borgarfulltrúinn taka það skýrt fram að þó að hann hafi fullan skilning á þeim mikla kostnaði sem fylgir gatnagerð og viðhaldi gatna er hann alfarið á móti þessari hækkun. Einnig má minna á þá staðreynd að borgarsjóður hefur lengi staðið illa og öll hækkun álagninga á borgarbúa er í raun ákveðin aðferð meirihlutans til þess að ná í meira fjármagn í vasa borgarbúa. Þrátt fyrir skiljanleg rök fyrir þessari hækkun, er ekki hægt að leggja meira á fólk hér í borginni en það sem komið er.
Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. og 16. lið fundargerðarinnar frá 30. janúar:
Hækkun gatnagerðargjalda kann ekki góðri lukku að stýra á tímum þar sem mikil vöntun er á húsnæði í Reykjavík. Borgarfulltrúi Vinstri grænna óttast að þessi hækkun skapi tregðu í uppbyggingu og að hún skili sér almennt í hækkun húsnæðisverðs. Og um aðrar hækkanir. Nú hækka Félagsbústaðir leigu umfram verðlag. Reykjavíkurborg þarf að verja leigjendur Félagsbústaða fyrir þessum hækkunum og hækka sérstakan húsnæðisstuðning sem nemur hækkunum Félagsbústaða. Þó sjónarmiðin fyrir hækkunum Félagsbústaða séu málefnaleg og rökstudd þá er það ljóst að þessar hækkanir eiga eftir að reynast mörgum leigjendum þungbærar. Þá leigjendur þarf Reykjavíkurborg að grípa og verja með þeim leiðum sem eru færar.
Fylgigögn
Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 31. janúar, mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 23. janúar, skóla- og frístundaráðs frá 27. janúar, stafræns ráðs frá 22. janúar, umhverfis- og skipulagsráðs frá 22. og 29. janúar.
4. liður fundargerðar forsætisnefndar, lausnarbeiðni Pawels Bartoszek varaborgarfulltrúa, er samþykktur. MSS25010033
Fylgigögn
[Fundargerð forsætisnefndar frá 31. janúar](https://fundur.reykjavik.is/sites/default/files/agenda-items/FG250131.pdf) [Fundargerð mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 23. janúar](https://fundur.reykjavik.is/sites/default/files/agenda-items/FG_MO_2301.pdf) [Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 27. janúar](https://fundur.reykjavik.is/sites/default/files/agenda-items/FG_sk%C3%B3la_og_fr%C3%ADstundar%C3%A1%C3%B0_2701.pdf) [Fundargerð stafræns ráðs frá 22. janúar](https://fundur.reykjavik.is/sites/default/files/agenda-items/FG_STR_2201.pdf) [Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 22. janúar](https://fundur.reykjavik.is/sites/default/files/agenda-items/FG_USK_2201_0.pdf) [Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 29. janúar](https://fundur.reykjavik.is/sites/default/files/agenda-items/FG_USK_2901_lei%C3%B0r%C3%A9tt_0.pdf)
Samþykkt að taka á dagskrá lausnarbeiðni Helga Péturssonar varaborgarfulltrúa þar sem hann óskar eftir því að borgarstjórn veiti sér lausn frá störfum til loka kjörtímabilsins.
Samþykkt. MSS25020018
Fylgigögn
Samþykkt að taka á dagskrá lausnarbeiðni Alondru Veronicu V. Silva Muñoz varaborgarfulltrúa þar sem hún óskar eftir því að borgarstjórn veiti sér lausn frá störfum til 6. maí nk.
Samþykkt. MSS25020019
Fylgigögn
**Fundi slitið kl. 20:00**
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Friðjón R. Friðjónsson
**PDF útgáfa fundargerðar Borgarstjórn 04.02.2025 - Prentvæn útgáfa**