Reykjavíkurborg
Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 333
==
==
[Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 333
](/fundargerdir/umhverfis-og-skipulagsrad-fundur-nr-333)
**Umhverfis- og skipulagsráð**
Ár 2025, miðvikudaginn 5. febrúar, kl. 9:08 var haldinn 333. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Friðjón R. Friðjónsson, Hjálmar Sveinsson, Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir og áheyrnarfulltrúinn Einar Sveinbjörn Guðmundsson. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Björn Axelsson, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson og Sigurjóna Guðnadóttir.
Fundarritari var Glóey Helgudóttur Finnsdóttir.
**Þetta gerðist:**
Lagt fram afgreiðslubréf borgarstjórnar, dags. 5. febrúar 2025, vegna samþykktar borgarstjórnar um að Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir taki sæti í umhverfis- og skipulagsráði í stað Pawel Bartoszek. MSS22060046
Fylgigögn
Fram fer kosning um varaformann umhverfis- og skipulagsráðs.
Samþykkt er að Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir verði varaformaður umhverfis- og skipulagsráðs. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS22060046
Fram fer kynning á drögum að aðalskipulagi Reykjavíkur 2024, íbúðaruppbyggingu í grónum hverfum, sbr. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga, dags. febrúar 2025. Kynning og bókanir undir þessum lið eru færðar í trúnaðarbók umhverfis- og skipulagsráðs.
Haraldur Sigurðsson deildarstjóri og Margrét Lára Baldursdóttir verkefnastjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK24080161
Lagt fram og kynnt, Aðalskipulag Reykjavíkur, Stakar húsbyggingar á opnum svæðum (OP15, OP28), Heimildir um endurbyggingu, viðbyggingar og nýbyggingar dags. febrúar 2025. Lagt er til að afgreiða tillöguna í auglýsingu.
Samþykkt að auglýsa, sbr. 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Vísað til borgarráðs.
Haraldur Sigurðsson deildarstjóri og Margrét Lára Baldursdóttir verkefnastjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK24060311
Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Fulltrúi Flokks fólksins telur að vernda þurfi græn svæði í borgarlandinu eins og hægt er. Auðvitað þarf líka að hafa í huga ákveðin atriði varðandi framtíðar uppbyggingu hverfa og þéttingu þeirra sem fyrir eru. En græn svæði eru eins og allir vita, ákveðin lífsgæði fyrir þá íbúa sem í kringum þau búa - sem og aðra borgarbúa. Annað sem þarf einnig að huga að varðandi græn og opin svæði, er að með lagningu göngustíga eða annarra aðgengislausna væri verið að vernda þau betur gegn átroðningi m.t.t. gróðurs eða minja. Í framhaldi mætti líka hafa í huga að áhugi er hjá ferðaþjónustufyrirtækjum að nýta sum þessara svæða sem hluta af skipulögðum göngu- eða hjólaferðum svo eitthvað sé nefnt. Verndun þeirra lífsgæða sem í grænum svæðum felast ásamt skynsamlegri nýtingu þeirra er það sem öllu máli skiptir þegar kemur að uppbyggingu á opnum svæðum í borgarlandinu.
Fylgigögn
Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar skipulagsfulltrúa dags. 30. janúar 2025. USK22120094
Fylgigögn
Að lokinni grenndarkynningu er lögð fram að nýju umsókn Björns Guðbrandssonar, dags. 11. mars 2024, um breytingu á deiliskipulagi Ártúnshöfða - Iðnaðarsvæðis vegna lóðarinnar nr. 7 við Vagnhöfða. Í breytingunni sem lögð er til felst stækkun lóðarinnar til norðvesturs, samkvæmt uppdr. Arkís dags. 6. mars 2024. Samþykkt var að framlengja athugasemdafrest á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 14. nóvember 2024 og var erindi grenndarkynnt frá 3. október 2024 til og með 18. desember 2024. Athugasemdir bárust. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 23. janúar 2025. Lagt er til að tillagan verði samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.
Samþykkt með vísan til a. liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur umhverfis- og skipulagsráðs án staðfestingar borgarráðs.
Sólveig Sigurðardóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK24030153
Fylgigögn
Lögð fram umsókn Bus hostel ehf., dags. 18. nóvember 2024, um breytingu á deiliskipulagi Skógarhlíðar vegna lóðarinnar nr. 10 við Skógarhlíð. Í breytingunni sem lögð er til felst að innkeyrslum inn á lóðina er breytt, samkvæmt uppdr. Strendings ehf., dags. 15. nóvember 2024. Lagt er til að tillagan verði afgreidd í auglýsingu.
Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Vísað til borgarráðs.
Valný Aðalsteinsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK24110202
Fylgigögn
Lögð fram að nýju umsókn Teiknistofunnar Storð ehf., dags. 14. maí 2024, ásamt bréfi Hermanns Georgs Gunnlaugssonar, dags. 14. maí 2024, um breytingu á deiliskipulagi Grafarlækjar-Stekkjarmóa-Djúpadals vegna lóðarinnar nr. 2-4 við Grafarlæk. Í breytingunni sem lögð er til felst að koma fyrir byggingarreit fyrir vélageymslu Golfklúbbs Reykjavíkur og og steypt hólf eða gryfjur fyrir efnislager, samkvæmt uppdr. Teiknistofunnar Storð ehf., dags. 15. janúar 2025. Lagt er til að tillagan verði afgreidd í auglýsingu.
Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Vísað til borgarráðs.
Þórður Már Sigfússon verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK24050161
Fylgigögn
Fram fer kynning á forhönnun Lönguhlíðar og Drápuhlíðar.
Árni Snær Kristjánsson frá VSÓ og Bjarni Rúnar Ingvarsson deildarstjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK24100158
Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar:
Fyrirhugað er að umbreyta Lönguhlíð í borgargötu í takt við nýsamþykkt hverfisskipulag fyrir Hlíðarnar. Sömuleiðis á að endurgera Drápuhlíð og bæta við gangstétt þeim megin þar sem gangstéttina vantar. Tvær tillögur að útfærslum fóru í íbúakönnun meðal íbúa og er nú unnið á þeim grunni sem valinn var af miklum meirihluta íbúa. Er verið að nýta þá aðferðarfræði í auknum mæli í takt við lýðræðisstefnu borgarinnar og hefur hún reynst vel til að skapa sátt um breytingar sem gerðar eru. Í öllum þessum breytingum er verið að bæta aðstæður fyrir gangandi og hjólandi og gera allt umhverfið öruggara og vistlegra. Aðdragandinn að þessu eru framkvæmdir Veitna á svæðinu og verið er að nýta ferðina og bæta umhverfið í leiðinni.
Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja fram komnar hugmyndir um fyrirhugaðar breytingar á Lönguhlíð og Drápuhlíð. Hugmyndirnar eru mjög í anda tillögu Sjálfstæðisflokksins frá október 2022 um að ráðist verði í almennar endurbætur á sunnanverðri Lönguhlíð í þágu umferðaröryggis og hlutverk hennar styrkt sem borgargötu í miðju Hlíðahverfis. Þá yrði gróður við götuna aukinn og hjólabrautir lagfærðar, endurbættar, vel merktar og samfelldar alla leið. Enn fremur yrði aðkoma bætt að biðstöðvum strætisvagna í götunni. Í september 2023 lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að ráðist yrði í endurbætur á gangstétt við Drápuhlíð þar sem hún væri mjög ójöfn, víða brotin og sums staðar torfær vegna illgresis. Ánægjulegt er að slíkar endurbætur séu nú í undirbúningi í neðri hluta götunnar en bent skal á að einnig er brýn þörf á endurbótum á gangstétt í efri hluta hennar.
Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Fulltrúi Flokks fólksins lýsir ánægju sinni með þær útfærslur sem þarna eru kynntar. Verkefnið er vel útfært ásamt því að hugað var að vilja íbúa á svæðinu. Einnig skerðir þessi hönnun ekki fjölda þeirra bílastæða sem fyrir eru heldur gerir ráð fyrir stæðum samhliða gangstéttum beggja megin götunnar. Vill fulltrúinn taka það sérstaklega fram að þær lausnir sem hér er verið að kynna þarf einnig að útfæra fyrir fjölmargar aðrar götur í Reykjavík. Götur þar sem einungis er gangstétt öðru megin eru allt of margar í borginni. Slíkar götur eru sérstaklega hættulegar börnum sem þurfa að ganga á milli kyrrstæðra bíla til þess að komast yfir þessar götur. Í raun mætti koma hér fram með tillögu þess efnis að gerð yrði heildarúttekt á þeim götum í Reykjavík þar sem gangstéttir eru bara öðru megin - með þeirri hættu og óhagræði sem gangandi vegfarendum stafar af af þeim.
Fylgigögn
Fram fer kynning á aðgengismálum hjá Strætó, m.a. á Navilens merkingum.
Herdís Steinarsdóttir og Jóhannes Svavar Rúnarsson frá Strætó og Grétar Mar Hreggviðsson, Bjarni Rúnar Ingvarsson og Bragi Bergsson verkefnastjórar taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK24110028
Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar:
Ánægjulegt er að sjá aðgengisúrbætur hjá strætó. Verið er að innleiða notkun Navilens blindralesturskerfisins á strætóskýlum og bæta festingar fyrir hjólastóla í vögnunum. Í appinu er meðal annars búið að stækka valmynd en unnið er að því að uppfæra kortið og gera það auðlæsilegra. Sömuleiðis er verið að merkja allar biðstöðvar sem eru aðgengilegar sem mun stórauka fyrirsjáanleika fyrir fatlað fólk þegar það er að skipuleggja sínar ferðir.
Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna umbótum hjá Strætó bs. varðandi upplýsingagjöf með svokallaðri Navilens-tækni í þágu blindra og sjónskertra. Minnt er á fyrri tillögur og ábendingar um almenna upplýsingagjöf Strætó bs., sem víða er ábótavant. a) Æskilegt er að allar biðstöðvar, sem fram undan eru, séu sýndar á leiðaspjöldum á biðstöðvum. b) Bæta þarf merkingar á skiptistöðvum, t.d. í Mjódd og við Skúlagötu, með því að setja þar upp kort af leiðakerfi Strætó í heild sinni. c) Bæta þarf merkingar á Lækjartorgi. Um er að ræða þrjár biðstöðvar, sem aðgreindar eru með bókstöfunum A, B og C. Rúmlega hundrað metrar og fjórar akreinar skilja að biðstöðvar A og C við Lækjargötu en biðstöð B er við Hverfisgötu. Æskilegt er að hver biðstöð á Lækjartorgi verði merkt með viðeigandi bókstaf með áberandi hætti, strætisvagnafarþegum til glöggvunar. d) Æskilegt er að upplýsingar um biðstöðvar leiða, séu sýndar með skýrum, línulegum merkingum í viðkomandi strætisvögnum, eins og tíðkast víða erlendis, farþegum til glöggvunar.
Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Borgarfulltrúa Flokks fólksins líst vel á verkefnið. Stafræn umbreyting sem þessi er auðvitað löngu tímabær og í raun hefði mátt byrja á þessu mun fyrr. Eins og flestir vita komu upp ákveðin vandamál á sínum tíma varðandi innleiðingu og virkni Klapp appsins sem tengdust snertilausnum og öðru - þess vegna skiptir miklu máli að innleiðing þessarar lausnar gangi sem best fyrir sig. Hér er um mikilvægar umbætur á aðgengismálum að ræða. Í kjölfar kynningar urðu m.a. umræður um merkingar á strætóskýlum sem þyrfti að bæta vegna þess að aukinn sjáanleiki hvað varðar leiðir og annað, væri til mikilla bóta fyrir þá sem nota strætó - samhliða lausnum eins og þeirri sem kynningin kemur inn á.
Fram fer kynning á breytingum sem eru að verða á endurvinnslustöðvum Sorpu við Dalveg og Sævarhöfða og hvaða áhrif það mun hafa á þjónustu.
Gunnar Dofri Ólafsson frá Sorpu bs. tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK25010318
Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar, Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Kópavogsbær hefur farið fram á skil lóðar endurvinnslustöðvar Sorpu við Dalveg þann 1. september nk. Heimsóknir á endurvinnslustöð Sorpu við Dalveg eru um 180.000 á ári. Telja má nokkuð víst að þær heimsóknir flytjist á stöðvarnar við Jafnasel og Sævarhöfða í Reykjavík. Þær eru nú þegar mjög ásettar. Til að mæta auknu álagi er m.a. til skoðunar að fækka úrgangsflokkum við Jafnasel sem þýðir þjónustuskerðing við íbúa Breiðholts. Við fögnum því að til standi að reisa nýja endurvinnslustöð við Glaðheima í Kópavogi, en fer jafnframt fram á að Kópavogsbær fresti skilum á lóð endurvinnslustöðvar við Dalveg þar til reist hefur verið ný endurvinnslustöð við Glaðheima. Lokun við Dalveg þann 1. september nk. myndi valda verulegri þjónustuskerðingu fyrir íbúa Reykjavíkur, Kópavogs og Garðabæjar.
Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Með lokun Endurvinnslustöðvar Sorpu við Dalveg skapast meira álag á aðrar stöðvar. Einnig vakna spurningar um hvað varðar ábyrgð sveitarfélaga á sínu eigin sorpi - ef svo má að orði komast. Í raun má halda því fram að ef Kópavogsbær ákveður að loka endurvinnslustöðinni við Dalveg ætti bærinn að setja upp sambærilega stöð annars staðar í bænum í stað þess að ætlast til þess að umferðin á Dalveg færist þá í nágrannasveitarfélögin með tilheyrandi álagi. Í kynningu er talað um breyttan opnunartíma á endurvinnslustöðinni á Breiðhellu í Hafnarfirði til að komast til móts við þessa breytingu. Fulltrúinn vill því ítreka að með lokun stöðvarinnar við Dalveg mun umferðarálag líklega aukast á aðrar stöðvar - sem ekki er á bætandi þegar litið er til þess umferðarþunga sem á þessu svæði er á annatímum.
Fram fer kynning á niðurstöðu á neyslukönnun Sorpu um flokkun og viðhorf íbúa til flokkunar og þjónustu Sorpu.
Gunnar Dofri Ólafsson frá Sorpu bs. tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK25010318
Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands minnir á að hreyfihamlaðir eru að mestu leyti útilokaðir frá endurvinnslustöðvunum þar sem þeir sem gætu komið á staðinn með sorpið sitt í eigin bifreið fá hvergi aðstoð við að losa bílinn. Á þetta sérstaklega við þá sem nota hjólastóla og geta ekki sveiflað hlutum upp fyrir sig og þannig upp í gámana. Sósíalistar hafa áður komið með tillögur um að Sorpa bjóði hreyfihömluðum að fá slíka aðstoð á afmörkuðum tímum og stöðvum en ekki hefur verið vilji til að koma þannig til móts við þennan hóp. Þykir Sósíalistaflokki það miður enda ákveðin mismunun fólgin í því að koma ekki til móts við þá hreyfihamlaða sem vilja endurvinna til jafns við aðra.
Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Skiptar skoðanir hafa verið á skipulagningu varðandi grenndarstöðvar og flokkun. Samkvæmt könnun vilja flestir geta losað sig við sem flest sem næst sínum heimilum. Auðvitað væri slík þjónusta bæði plássfrek og kostnaðarsöm og þess vegna skiptir máli skynsamleg dreifing stærri endurvinnslustöðva og gott aðgengi er þess vegna nauðsynleg hvað þetta varðar. Í umræðum í kjölfar kynningar var komið inn á ýmis atriði varðandi “hegðun fólks” varðandi losun sorps - eins og m.a. það að talsvert er um að fólk sé að losa sig við allskyns óskylt drasl í grenndarstöðvum sem ekki á þar heima. Í framhaldi af því voru kynntar ýmsar leiðir sem eru í skoðun sem hafa með m.a. með fyrirbyggjandi aðgerðir að gera. Það er mikilvægt að tekið verði á þeim sóðaskap sem orðið getur vegna slíkrar sorplosunar fólks á rusli sem ekki á heima á grenndarstöðvum og á að fara með beint á endurvinnslustöðvar Sorpu.
Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa dags. 28. janúar 2025. USK24070166
Fylgigögn
Lögð fram að nýju tillaga íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis sbr. 23. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 8. maí 2024. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 23. desember 2024.
Tillögunni er vísað til meðferðar í stýrihóp um gönguvæna borg. MSS24040130
Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir með íbúaráði Háaleitis- og Bústaðahverfis um bætt umferðaröryggi í Safamýri. Kjarninn í þessari tillögu er sá að hlúð verði eins vel og hægt er að öryggi gangandi vegfarenda - sérstaklega hvað varðar töluverða umferð barna og unglinga sem eiga þarna leið um á hverjum degi. Í tillögunni koma fram ýmis atriði og uppástungur sem miða að því að bæta aðgengi og öryggi. Íbúaráðið leggur fram í tillögu hugmyndir að ákveðnum lausnum varðandi bílastæðamál. Þrátt fyrir allt þetta kemur fram í umsögn samgöngufulltrúa að ekki sé ástæða til þess að leggjast í heildstæða úttekt á götunni og er vísað í niðurstöður samantekta og mælinga - að þar hafi ekki verið mikið um slys eða önnur óhöpp undanfarin ár. Fulltrúinn verður að benda sérstaklega á þetta í umsögninni - vegna þess að hann telur að ekki eigi að þurfa alvarleg slys á fólki til þess að hægt sé að ráðast í það að bæta öryggi gangandi vegfarenda. Þess vegna er fulltrúinn sammála tillögu íbúaráðsins og telur þau rök sem þar eru færð fram fullnægjandi til þess að farið sé í umbeðna úttekt á öryggi barna og unglinga og annarra gangandi vegfarenda í götunni.
Fylgigögn
Lögð fram að nýju tillaga íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis sbr. 24. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs þann 8. maí 2024. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 23. desember 2024.
Tillögunni er vísað til meðferðar í stýrihóp um gönguvæna borg. MSS24040131
Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Hér er verið að fjalla um sömu atriði og koma fram í fyrri tillögu íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis. Óskað er eftir að gerð verði heildstæð úttekt á öryggi gangandi vegfarenda sem að stórum hluta eru börn og unglingar í götu þar sem umferð hefur verið að aukast. Sömu rök fylgja báðum tillögum ráðsins og vill fulltrúinn enn og aftur taka það fram að hann er algjörlega sammála íbúaráðinu hvað þetta varðar. Sömu rök koma einnig frá Samgöngustjóra gegn þessari tillögu sem og þeirri fyrri. Þeim rökum vill fulltrúi Flokks fólksins mótmæla og ítrekar þá skoðun sína að það eigi ekki að þurfa alvarleg slys á fólki til þess að ráðist sé í endurbætur - eða í raun fyrirbyggjandi aðgerðir til þess að auka öryggi gangandi vegfarenda í borginni. Telur fulltrúinn því þessar tillögu íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis góða og nauðsynlega m.t.t. þeirra aðstæðna sem lýst er í meðfylgjandi greinargerð.
Fylgigögn
Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar:
Lagt er til að vinna heildstæða samantekt á leiðum til að bæta aðgengi, vellíðan og umferðaröryggi gangandi og hjólandi barna á leið til skóla og tómstundaiðkunar með fordæmum erlendis frá um mismunandi leiðir sem skilað hafa góðum árangri. Samantektin verði lögð fyrir stýrihóp um gönguvæna borg sem efniviður í vinnu við þá stefnumörkun.
Samþykkt. USK25010339
Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Fulltrúi Flokks fólksins er sammála því að bæta þarf til muna aðgengi og umferðaröryggi á gönguleiðum skólabarna. Því miður eru enn svæði í borginni þar sem mikið vantar upp á það sem þessi tillaga gengur út á. Hér á undan eru einmitt 2 tillögur frá íbúaráði þar sem einmitt er verið að óska eftir heildstæðri samantekt vegna þeirra þátta sem tillaga meirihlutans gengur út á. Vill fulltrúinn ítreka þá skoðun sína að ekki eigi að þurfa að koma til alvarleg slys á fólki til þess að ráðist verði í aðgerðir varðandi öryggi gangandi vegfarenda. Einnig skiptir líka máli að eitthvað sé gert fyrr en seinna og ekki sé verið að bíða með nauðsynlegar úrbætur á öryggi langt inn í framtíðina vegna skipulagðrar uppbyggingar sem ekki hefur verið lokið. Það er hægt að gera margt til þess að bæta öryggi og aðgengi gangandi vegfarenda til bráðabirgða sem fyrirbyggjandi öryggisaðgerð.
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um bætt umferðaröryggi við gatnamót Sæbrautar og Kleppsmýrarvegar, sbr. 9. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 1. október 2024 og 8. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 15. október 2024. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 22. janúar 2025.
Tillögunni er vísað til mats og meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar. MSS24100077
Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Fulltrúi Flokks fólksins er sammála tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að brýnt sé að ráðast í þær neyðaraðgerðir á þessum gatnamótum sem um ræðir.
Fylgigögn
Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar:
Lagt er til að fela umhverfis- og skipulagssviði að hefja samtal við Vegagerðina um heildstæða skoðun á lengd grænna fasa fyrir gangandi við öll gatnamót á Sæbraut og hvort það þurfi að lengja fasa eða bæta aðstæður og öryggi gangandi með öðru móti.
Samþykkt. USK25010340
Lögð fram að nýju tillaga íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis um skoðun á breytingu strætóleiða, sbr. 2. liður fundargerðar dags. 28. janúar 2025. Tillögunni var vísað til umhverfis- og skipulagsráðs.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar. MSS25010142
Fylgigögn
Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um endurnýjun íbúakorta bílastæðasjóðs, sbr. 27. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 29. janúar 2025.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgangna og borgarhönnunar. USK25010311
Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Lagt er til að úrbætur verði gerðar á götulýsingu við Bríetartún. Ellefu ljósastaurar eru óvirkir á kaflanum milli Rauðarárstígs og Snorrabrautar. Jafnframt er óskað eftir upplýsingum um ástæður þessarar óvirkni.
Frestað. USK25020051
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska upplýsinga hvað líður endurskoðun reglna um íbúakort. Fyrirspurninni fylgir greinargerð. USK25020052
Fylgigögn
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um breytingu á reglum um íbúakort frá 23. ágúst 2023 var svarað þann 13. október sama ár og vísað til vinnu á Umhverfis- og skipulagssviði um yfirferð á reglum um íbúakort. Síðan eru 477 dagar liðnir og lítið spurst til nýrra reglna. Ítrekað síðan þá hefur umræða um íbúakort komið upp innan borgarinnar og í fjölmiðlum, í íbúaráðum, borgarráði og víðar. Þörfin fyrir endurskoðun og bætingu reglnanna er enn brýnni eftir lengingu gjaldskyldu og stækkun gjaldskyldusvæða. Því ítreka borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ákall um breytingu á reglum um íbúakort og íbúum á gjaldsvæðum verði gert auðveldara að fá og nýta íbúakort. USK25020057
- Kl. 12:07 víkur Hjálmar Sveinsson af fundi.
**Fundi slitið kl. 12:41**
Dóra Björt Guðjónsdóttir Aðalsteinn Haukur Sverrisson
Friðjón R. Friðjónsson Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir
Kjartan Magnússon Líf Magneudóttir
**PDF útgáfa fundargerðar Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 5. febrúar 2025**