Reykjavíkurborg
Velferðarráð - Fundur nr. 497
==
==
[Velferðarráð - Fundur nr. 497
](/fundargerdir/velferdarrad-fundur-nr-497)
**Velferðarráð**
Ár 2025, miðvikudagur 5. febrúar var haldinn 497. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:08 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Sabine Leskopf, Helga Þórðardóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Sandra Hlíf Ocares, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Þorvaldur Daníelsson. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Unnur Þöll Benediktsdóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Dís Sigurgeirsdóttir, Rannveig Einarsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.
**Þetta gerðist:**
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 4. febrúar 2025, þar sem tilkynnt er að samþykkt hafi verið á fundi borgarstjórnar sama dag, að Sabine Leskopf taki sæti sem fulltrúi í velferðarráði í stað Heiðu Bjargar Hilmisdóttur og að Sabine hafi verið kosin formaður ráðsins. Jafnframt lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 23.janúar 2025, þar sem tilkynnt er að samþykkt hafi verið á fundi borgarstjórnar 21. janúar 2025, að Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns taki sæti sem varafulltrúi í velferðarráð í stað Elísabetar Guðrúnar Jónsdóttur og að Einar Sveinbjörn Guðmundsson taki sæti sem varafulltrúi í velferðarráði í stað Kolbrúnar Áslaugar Baldursdóttur. MSS22060049.
Fylgigögn
Fram fer kynning á lokaskýrslu starfshóps um stefnu og aðgerðir í skaðaminnkun. VEL25010014.
Helga Sif Friðjónsdóttir, formaður starfshóps um stefnu og aðgerðir í skaðaminnkun, tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti, og Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri Vesturmiðstöðvar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins í velferðarráði þakka fulltrúum starfshópsins fyrir afar gagnlega kynningu. Fulltrúarnir standa algerlega með hugmyndafræði skaðaminnkunar til að vinna gegn þeim alvarlegu neikvæðu heilsufarslegu, félagslegu og efnahagslegu áhrifum á fólk sem notar lögleg eða ólögleg vímuefni. Velferðarráð og velferðarsvið munu í kjölfarið vinna úr þeim ábendingum sem fram koma í skýrslunni og snerta þjónustu borgarinnar við þennan hóp.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins þakkar fyrir góða kynningu og styður hugmyndafræði skaðaminnkunar sem miðar að því að vinna gegn neikvæðum heilsufarslegum, félagslegum og efnahagslegum áhrifum á fólk sem notar lögleg eða ólögleg vímuefni. Mikilvægt skref er tekið með þessari stefnumótun og aðgerðaáætlun. Hinsvegar er mikilvægt að skerpt sé á því hver ber ábyrgð, ríki eða sveitarfélag. Einnig er mikilvægt að unnin sé kostnaðargreining á þessum úrræðum. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins styður að starfsmönnum velferðarsviðs verði falið að vinna úr þeim ábendingum sem fram koma í skýrslunni, en leggur mikla áherslu á að hluti af þeirri vinnu feli í sér samtal við heilbrigðisráðuneytið og starfsmenn þess þannig að tryggt sé að skýr verkaskipting sé til staðar og öllum aðilum ljóst hvernig sú skipting er bæði varðandi framkvæmd og kostnað.
Fylgigögn
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 3. febrúar 2025. um samþykkt samnings við Samhjálp um rekstur stuðningsheimilis að Miklubraut, ásamt fylgiskjali:
Lagt er til að velferðarráð samþykki drög að samningi við Samhjálp um rekstur stuðningsheimilis að Miklubraut. Heildarfjárhæð samningsins er 12.748.918 kr., sem rúmast innan fjárhagsramma velferðarsviðs 2025.
Greinargerð fylgir tillögunni. VEL25010063.
Samþykkt.
Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri Vesturmiðstöðvar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
- kl. 14:04 víkur Unnur Þöll Benediktsdóttir af fundinum og Magnea Gná Jóhannsdóttir tekur sæti á fundinum.
Fylgigögn
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 3. febrúar 2025, um breytingar á tekju- og eignamörkum í reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði:
Lagt er til að tekju- og eignamörk 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði verði uppfærð til samræmis við reglugerð nr. 1342/2020, um ráðstöfun leiguíbúða skv. 37. gr. laga um húsnæðismál nr. 44/1998, með síðari breytingum. Einnig er lagt til að viðmið varðandi tekjur á ársgrundvelli í matsviðmiðum varðandi almennt félagslegt leiguhúsnæði, sbr. fylgiskjal I með reglunum, verði uppfærð til samræmis við reglugerðina. Ekki er gert ráð fyrir að tillagan feli í sér viðbótarkostnað.
Greinagerð fylgir tillögunni. VEL25010057.
Samþykkt. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.
Vísað til borgarráðs.
Agnes Sif Andrésdóttir, fjármálastjóri velferðarsviðs, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 3. febrúar 2025, um breytingar á tekju- og eignamörkum í reglum Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning:
Lagt er til að samþykkt verði hækkun tekjumarka sem fram koma í 5. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning, afturvirkt frá 1. janúar 2025, sem hér segir:
Fjöldi heimilis- Fólks Neðri tekjumörk á ári Efri tekjumörk á ári Neðri tekjumörk á mánuði Efri tekjumörk á mánuði
1 5.935.476 7.419.345 494.623 618.279
2 7.894.184 9.867.730 657.849 822.311
3 9.199.988 11.499.985 766.666 958.332
4 9.971.600 12.464.500 830.967 1.038.708
5 10.802.567 13.503.209 900.214 1.125.267
6+ 11.633.533 14.541.916 969.461 1.211.826
Jafnframt er lagt til að samþykkt verði að eignamörk samkvæmt 6. tl. 1. mgr. 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning verði hækkuð úr 7.745.000 kr. í 8.079.000 kr. og gildi afturvirkt frá 1. janúar 2025.
Greinargerð fylgir tillögunni. VEL25010058.
Samþykkt. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.
Vísað til borgarráðs.
Agnes Sif Andrésdóttir, fjármálastjóri velferðarsviðs, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
Minnisblað borgarlögmanns um túlkun á lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga í tengslum við ábyrgð sveitarfélaga á kostnaði sem til fellur vegna þjónustu við heimilislaust fólk. MSS24110033.
Frestað.
Lögð fram svohljóðandi tillaga styrkjahóps velferðarráðs, dags. 3. febrúar 2025, um styrkveitingar úr borgarsjóði til verkefna á sviði félags- og velferðarmála 2025, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að velferðarráð samþykki tillögu styrkjahóps velferðarráðs um styrkveitingar velferðarráðs úr borgarsjóði fyrir árið 2025.
Greinagerð fylgir tillögunni. VEL24080037.
Frestað.
Tillögur stýrihóps um rýningu á biðlistum barna og ungmenna eftir sálfræðiþjónustu miðstöðva og mat á framkvæmd þjónustunnar, ásamt umsögn skóla- og frístundaráðs. MSS24030028.
Frestað.
Stöðumat á innleiðingu aðgerðaáætlunar með velferðarstefnu Reykjavíkurborgar. VEL22090177.
Frestað.
Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 24. janúar 2025, með bókun mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs um stöðu heimilislausra kvenna í neyslu sem búa við ofbeldi, sbr. 3. lið fundargerðar ráðsins frá 23. janúar 2025. VEL25010024.
Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Velferðarráð tekur undir bókun mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs að öllu leyti. Þörfin fyrir neyðarathvarf fyrir þann hóp sem um ræðir er knýjandi. Velferðarráð fer þess því á leit við velferðarsvið Reykjavíkurborgar að það skoði strax hvaða kostir eru í stöðunni og upplýsi ráðið á næsta fundi ráðsins um framvindu málsins. Rétt er að sviðið ræði sérstaklega við rekstraraðila Kvennaathvarfsins og mögulega aðkomu þeirra að rekstri þess úrræðis sem til skoðunar er, þ.e. kvennaathvarf sem er sérstaklega fyrir konur sem eru í neyslu. Þá er er einnig rétt að ræða við félagsmálaráðuneytið um mögulega aðkomu ríkisins að neyðarathvarfinu.
Fylgigögn
Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 3. febrúar 2025, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um hækkun leigu hjá Félagsbústöðum, sbr. 20. lið fundargerðar velferðarráðs frá 30. október 2024. VEL24100089.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Um er að ræða fyrirspurn frá því í október á síðasta ári. Þá óskaði Flokkur fólksins upplýsinga um það hvort Félagsbústaðir ætluðu að hækka húsaleigu um 6,5% umfram vísitölu og hvort ráðast ætti í mótvægisaðgerðir fyrir leigjendur. Ástæða fyrirspurnarinnar er að fulltrúa Flokks fólksins hafði borist til eyrna að slík hækkun stæði til og hafði fulltrúinn af því áhyggjur. Flokkur fólksins fékk aldrei svar við þessari fyrirspurn og nú liggur svarið fyrir því ákveðið hefur verið að hækka leigu hjá Félagsbústöðum um 1,5% frá og með 1. maí 2025. Þessi hækkun var samþykkt á borgarstjórnarfundi 4.febrúar síðastliðinn. Fulltrúi Flokks fólksins vill taka fram að hann samþykkti ekki þessa hækkun í borgarstjórn.
Fylgigögn
Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 3. febrúar 2025, við fyrirspurn fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, um leiguverð hjá Félagsbústöðum sem hlutfall af markaðsleigu, sbr. 13. lið fundargerðar velferðarráðs frá 15. janúar 2025. VEL25010032.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúa Flokks fólksins finnst athyglisvert að sjá að ekki sé meiri munur á leiguverði hjá Félagsbústöðum og af markaðsleigu. Nú er hlutfall leigu Félagsbústaða af markaðsleigu 79%. Þetta kemur á óvart því mikið hefur verið talað um að leiguverð hjá Félagsbústöðum miðist við ákveðið hlutfall af leiguverði á almennum leigumarkaði og þá er talað um 60%. Samkvæmt gögnum hefur það ekki verið raunin síðustu átta ár.
Fylgigögn
Lagður fram að nýju 3. liður fundargerðar velferðarráðs frá 15. janúar 2025, tillaga sviðsstjóra um breytingar á leiguverði Félagsbústaða, sem bókað var um í trúnaðarbók velferðarráðs. VEL25010021.
Við afgreiðslu málsins voru eftirfarandi bókanir færðar í trúnaðarbók velferðarráðs:
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata lögðu fram svohljóðandi bókun:
Velferðarráð telur brýnt að tryggja fjárhagslega sjálfbærni Félagsbústaða til lengri tíma þannig að félagið geti sinnt hlutverki sínu í uppbyggingu og rekstri félagslegs húsnæðis. Hækkun um 1,5% samhliða skipun starfshóps til þess að fara yfir rekstrarlíkan félagsins er mikilvægt skref í þá átt þó vissulega þurfi meira að koma til. Er það von félagsins að starfshópurinn vinni hratt og vel og að niðurstöður liggi fyrir innan tveggja mánaða. Velferðarráð er meðvitað um að leigutakar hjá Félagsbústöðum búa við bága fjárhagslega stöðu en telur að hækkun um 1,5% sé hófleg enda er mikill munur á almennu leiguverði og leiguverði hjá Félagsbústöðum. Þá verður að horfa til þess að hækkunin styrkir rekstrargrundvöll félagsins sem gerir félagið betur í stakk búið til þess að fjölga eignum og fækka þannig einstaklingum sem eru á biðlistum eftir félagslegu húsnæði. Sá hópur sem er á biðlistum er einstaklega illa staddur enda leigir hann á almennum markaði og greiðir leigu í samræmi við það.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði fram svohljóðandi bókun:
Af þeim hugmyndum sem uppi voru um leiðir til að bregðast hratt við fjárhagsvanda Félagsbústaða er umrædd tillaga vissulega hógværust með tilliti til áhrifa á leigjendur og fjárhag borgarinnar. Hins vegar telur velferðarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins auðséð að með því að draga örlítið meira úr fjárfestingum á nýjum íbúðum þetta árið megi á skjótum tíma vinna upp þann halla sem nú á að bregðast við með hækkun leiguverðs, gerandi þær hækkanir óþarfar. Velferðarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins kallaði eftir greiningu um áhrif fjárfestinga félagsins á fjárhaginn og greiðslugetu miðað við spár um vaxtarstig til næstu ára. Nauðsynlegt er að hafa slíkar upplýsingar fyrir hendi áður en teknar eru ákvarðanir sem varða Félagsbústaði.
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands lagði fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi sósíalista samþykkir ekki hækkun á leigu hjá leigjendum Félagsbústaða. Um er að ræða leigjendur sem að stórum hluta hafa lítið á milli handanna enda um að ræða íbúðir ætlaðar þeim sem eru undir ákveðnum eigna- og tekjumörkum. Leigan hefur tekið mánaðarlegum breytingum í takt við breytingar á vísitölu neysluverðs, þrátt fyrir að tekjur leigjenda hafi ekki gert það. Það á ekki að vera hlutverk fátækra leigjenda að viðhalda rekstri félagsins, aðrar aðgerðir þurfa að koma til. Þá gengur ekki að draga úr kaupum á íbúðum líkt og gert er ráð fyrir hér þar sem margir eru í þörf fyrir húsnæði. Endurskoða þarf skipulag Félagsbústaða þannig að ekki verði gert ráð fyrir því að leigjendur beri einna helst ábyrgð á því að viðhalda fjárhagslegri sjálfbærni félagsins. Jákvætt er að verið sé að endurskoða viðskiptalíkanið.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Meirihlutinn í velferðarráði leggur til að samþykkt verði að hækka leigu Félagsbústaða um 1,5% frá og með 1. maí 2025. Fulltrúi Flokks fólksins getur ekki samþykkt að hækka leigu Félagsbústaða neitt enda munar um hverja krónu hjá þessum viðkvæma hópi. Finna þarf aðrar leiðir. Fulltrúi Flokks fólksins vill nefna að óhagnaðardrifin leigufélög í Reykjavík og Mosfellsbæ eru með lægra leiguverð en Félagsbústaðir. Hvað í rekstrinum gerir þeim kleift að hafa lægri leigu en Félagsbústaðir? Tekið er undir þá tillögu stýrihóps að viðskiptamódel Félagsbústaða verði endurskoðað. Óljóst er með öllu hvaða niðurstöður verða fundnar í þeim efnum og hvernig þær niðurstöður munu koma við leigjendur. Flokkur fólksins lagði til 5. desember sl. að fallið yrði alfarið frá leiguverðshækkunum hjá Félagsbústöðum og þess í stað yrðu fundnar mótvægisaðgerðir s.s. í formi styrks til Félagsbústaða sem er bæði einfaldara og ódýrara fyrir borgina. Lagt var til að setja 300 m.kr. í mótvægisaðgerðir sem fjármagnað yrði af liðnum ófyrirséð. Samþykkt var að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs þar sem hún liggur enn.
Fylgigögn
Lagður fram að nýju 8. liður fundargerðar velferðarráðs frá 15. janúar 2025, tillaga borgarstjóra til breytinga á stjórnskipulagi málaflokks fatlaðs fólks á velferðarsviði Reykjavíkurborgar, sem færður var í trúnaðarbók velferðarráðs. MSS25010084.
Við afgreiðslu málsins lagði velferðarráð fram svohljóðandi breytingartillögu:
Velferðarráð leggur fram breytingartillögu þess efnis að eftirfarandi setningu verði bætt við tillöguna: Ráðgjöf við fatlað fólk og ýmis umsýsla, til að mynda vegna umsókna þjónustu, verður áfram á miðstöðvum.
Tillagan var samþykkt svo breytt og vísað til borgarráðs.
Eftirfarandi bókanir voru færðar í trúnaðarbók velferðarráðs:
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands lagði fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi sósíalista telur mikilvægt að hægt verði að taka tillit til mögulegra ábendinga sem kunna að koma frá starfsfólki eftir samtal við þá um breytingarnar.
Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram svohljóðandi bókun:
Meirihlutinn leggur til að borgarráð samþykki að fela sviðsstjóra velferðarsviðs að láta framkvæma og útfæra breytingu á stjórnskipulagi málaflokks fatlaðs fólks. Breytingin felur í sér að fagleg-, rekstrarleg stýring og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk n.t.t. búsetuþjónusta, stuðnings- og stoðþjónusta, vinna og virkni og NPA- og beingreiðslusamningar verði á ábyrgð einnar starfseiningar í stað fjögurra líkt og nú er. Fulltrúa Flokks fólksins sýnist að þessi breyting hljóti að vera til bóta.
Fylgigögn
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi framhaldsfyrirspurn:
Í kynningum sem hafa farið fram í gegnum tíðina um leigu Félagsbústaða þá hefur því verið haldið fram að leigan hafi verið um 60% af markaðsleigu og farið að nálgast 70% (þ.e.a.s. verið rúmlega 60%). Í þessu svari má finna mun hærri tölur. Hver er skýringin á þessu misræmi? VEL25010032.
**Fundi slitið kl. 15:00**
Sabine Leskopf Magnús Davíð Norðdahl
Sandra Hlíf Ocares Helga Þórðardóttir
Magnea Gná Jóhannsdóttir Sanna Magdalena Mörtudottir
Þorvaldur Daníelsson
**PDF útgáfa fundargerðar Fundargerð velferðarráðs frá 5. febrúar 2025**