Reykjavíkurborg
Velferðarráð - Fundur nr. 499
==
==
[Velferðarráð - Fundur nr. 499
](/fundargerdir/velferdarrad-fundur-nr-499)
**Velferðarráð**
Ár 2025, miðvikudagur 5. mars var haldinn 499. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:07 í húsnæði Barnaverndar Reykjavíkur, Ármúla 4. Á fundinn mættu: Sanna Magdalena Mörtudóttir, Guðný Maja Riba, Helgi Áss Grétarsson, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir og Sara Björg Sigurðardóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Dís Sigurgeirsdóttir, Rannveig Einarsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.
**Þetta gerðist:**
Fram fer kynning á starfsemi Barnaverndar Reykjavíkur. VEL25030001.
Elísa Ragnheiður Ingólfsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Samstarfsflokkarnir þakka fyrir góða kynningu á skipulagi Barnaverndar Reykjavíkur. Ánægjulegt er að sjá að vinna við framkvæmdaáætlun er í fullum gangi og að sífellt sé verið að bæta ferla og vinnuverklag til að geta veitt góða þjónustu. Innleiðing farsældarlaga, vinnulag Betri borgar fyrir börn ásamt þverfaglegu samstarfi á milli kerfa skilar sér í fækkun mála, þ.e.a.s. minni þörf á aðkomu barnaverndar. Mikilvægt er að styðja vel við starfsemi barnaverndar til að við getum alltaf boðið upp á velferðarþjónustu og stuðning við börn og fjölskyldur í Reykjavík.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir góða kynningu frá Barnavernd Reykjavíkur. Mikilvægt er að tryggja að ávallt sé nægjanlegur stuðningur við börn og barnafjölskyldur og öflug barnavernd er mikilvægur liður í því. Innleiðing farsældarlaganna skiptir miklu máli í því samhengi og að gengið sé úr skugga að úrræði á fyrsta, öðru og þriðja stigi séu til staðar og vinni saman. Það er gott að heyra að framkvæmdaáætlun í barnavernd gangi vel.
Fram fer kynning á samstarfsyfirlýsingu Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna. VEL25030002.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Húsnæði er grunnforsenda velferðar. Húsnæðisuppbygging og örugg heimili fólks eru lykilmál nýs samstarfs í borginni. Vinna þarf gegn fátækt og ójöfnuði, meðal annars með áherslu á heimili á félagslegum forsendum og stórauka þarf félagslegt húsnæði. Fulltrúar samstarfsflokkanna í velferðarráði fagna sérstaklega áherslunni um að bæta aðgengi að íþróttum, menningu og virkni og þátttöku í fjölbreyttu starfi með áherslu á börn í viðkvæmri stöðu. Þá er einnig sérstakt ánægjuefni að unnið verði gegn einmanaleika með markmiðum um að auka samveru íbúa með því að nýta húsnæði í eigu borgarinnar líkt og bókasöfn og félagsmiðstöðvar. Jákvætt er að vinna heildstætt gegn ofbeldi í samfélaginu með því að fagfólk fari fyrr inn í aðstæður og veiti stuðning strax. Fulltrúar samstarfsflokkanna í velferðarráði munu vinna með þær leiðir sem hægt er til að raungera þær áherslur sem fram koma í samstarfssáttmálanum og snúa að því að veita góð lífsgæði í Reykjavík. Einblína þarf á viðeigandi stuðning við fatlað fólk og heimili fyrir öll.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar leggja fram svohljóðandi bókun:
Eitt af mikilvægustu verkefnum Reykjavíkurborgar er öflug velferðarþjónusta við íbúa Reykjavíkurborgar. Enn er óljóst hvernig útfærslur nýs meirihluta verða í velferðarmálum og margt sem lagt er fram hefur nú þegar verið áhersla borgarinnar eða eru lögbundin verkefni borgarinnar.
Fylgigögn
Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 3. mars 2025, við framhaldsfyrirspurn fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, um leiguverð Félagsbústaða sem hlutfall af markaðsleigu, sbr. 15. lið fundargerðar velferðarráðs frá 5. febrúar 2025. VEL25010032.
Fylgigögn
Fram fer kynning á tíma- og verkáætlun vegna fjárhagsáætlunargerðar 2026-2030. VEL25020001.
Agnes Sif Andrésdóttir, fjármálastjóri velferðarsviðs, tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar leggja fram svohljóðandi bókun:
Þökkum góða kynningu á tíma- og verkáætlun fjárhagsáætlunar velferðarsviðs 2026. Ljóst er að hagræða þarf í rekstri Reykjavíkurborgar til þess að hægt verði að ráðast í þau verkefni sem lagt er upp með og eru mörg hver mjög brýn. Við hvetjum nýjan meirihluta til að koma með tillögur þess efnis.
Lagt fram minnisblað, dags. 3. mars 2025, með stöðumati á innleiðingu velferðarstefnu Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjali. VEL22090177.
Fylgigögn
Fram fer kynning á drögum að samstarfsyfirlýsingu um samstarfsverkefnið EXIT - leið út úr afbrotum, dags. 24. febrúar 2025. Lagt fram minnisblað undirbúningsteymis ríkislögreglustjóra, dags. 24. febrúar 2025, um EXIT - leið út úr afbrotum. VEL25030003.
Eygló Harðardóttir, verkefnastjóri afbrotavarna hjá ríkislögreglustjóra, Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu til ábyrgðar, og Sigþrúður Erla Arnardóttir, skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafar, taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Velferðarráð þakkar fyrir góða kynningu og fagnar þeirri vinnu sem hefur átt sér stað í EXIT- hópnum.
Fulltrúi Framsóknar leggur fram svohljóðandi bókun:
Framsókn fagnar EXIT-samstarfinu. Brýnt er að samþætta ferla sem taka á móti fólki sem lýkur afplánun. Markmiðið með EXIT-samstarfinu er að meginstefnu að fækka endurkomum í fangelsi sem verður að teljast mikið þjóðþrifa mál. Tveir fulltrúar Framsóknar hafa frá upphafi tekið þátt í verkefninu, stutt við það og sótt kynningar á svipuðum verkefnum erlendis sem reynst hafa vel. Verkefnið hefur frá upphafi verið unnið í miklu og góðu samstarfi ólíkra aðila sem koma að málaflokknum en með samvinnu ólíkra aðila aukast líkurnar á að árangur náist í málaflokknum. Það væri því mikið fagnaðarefni ef að samstarfið héldi áfram. Framtíðarsýn Framsóknar er að Reykjavíkurborg reyni eftir fremsta megni að mæta þeim sem ljúka afplánun með húsnæðisúrræðum og félagsþjónustu í samstarfi við ríkið. Að lokum er EXIT hópnum þakkað fyrir gott samstarf og sér í lagi Eygló Harðardóttur, hjá embætti ríkislögreglustjóra, fyrir að leiða verkefnið áfram.
Tillögur stýrihóps um rýningu biðlista barna og ungmenna eftir sálfræðiþjónustu miðstöðva og mat á framkvæmd þjónustunnar, ásamt umsögn skóla- og frístundaráðs. MSS24030028.
Frestað.
**Fundi slitið kl. 15:58**
Sanna Magdalena Mörtudottir Magnea Gná Jóhannsdóttir
Guðný Maja Riba Magnús Davíð Norðdahl
Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir Helgi Áss Grétarsson
Sara Björg Sigurðardóttir
**PDF útgáfa fundargerðar Fundargerð velferðarráðs frá 5. mars 2025**