Reykjavíkurborg
Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð mánudaginn 10. mars 2025 nr. 288
==
==
[Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð mánudaginn 10. mars 2025 nr. 288
](/fundargerdir/skola-og-fristundarad-og-fristundarad-manudaginn-10-mars-2025-nr-288)
**Skóla- og frístundaráð**
Ár 2025, 10. mars, var haldinn 288. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 13.15.
Eftirtalin voru komin til fundar í fundarherberginu Hofi: Helga Þórðardóttir formaður (F), Alexandra Briem (P), Árelía Eydís Guðmundsdóttir (B), Helgi Áss Grétarsson (D), Marta Guðjónsdóttir (D), Sabine Leskopf (S) og Stefán Pálsson (V). Auk þeirra eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jónína Einarsdóttir, leikskólastjórar; Kristín Björnsdóttir, kennarar í grunnskólum og Marta Maier, Reykjavíkurráð ungmenna. Auk þeirra eftirtaldir starfsmenn skóla- og frístundasviðs: Steinn Jóhannsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Arndís Steinþórsdóttir, Frans Páll Sigurðsson, Guðrún Sigtryggsdóttir, Ólafur Brynjar Bjarkason, Soffía Pálsdóttir og Eygló Traustadóttir sem ritaði fundargerð.
**Þetta gerðist:**
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 24. febrúar 2025, þar sem greint er frá því að á fundi borgarstjórnar 21. febrúar 2025 hafi eftirtaldir aðilar verið kosnir í skóla- og frístundaráð.
Helga Þórðardóttir formaður
Alexandra Briem
Sabine Leskopf
Stefán Pálsson
Marta Guðjónsdóttir
Helgi Áss Grétarsson
Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Varafulltrúar:
Einar Sveinbjörn Guðmundsson
Magnús Davíð Norðdahl
Ellen Calmon
Líf Magneudóttir
Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir
Sandra Hlíf Ocares
Ásta Björg Björgvinsdóttir
MSS22060048
Fylgigögn
Sabine Leskopf er kosin varaformaður skóla- og frístundaráðs. SFS25030023
Kl. 13.20 tekur Linda Ósk Sigurðardóttir sæti á fundinum.
Lagt fram yfirlit sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 27. febrúar 2025, yfir áheyrnarfulltrúa í skóla- og frístundaráði. SFS25020189
Fylgigögn
Lögð er fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðs:
Lagt er til að Alexandra Briem, Sabine Leskopf, Stefán Pálsson og Ásta Björg Björgvinsdóttir skipi valnefnd hvatningarverðlauna skóla- og frístundaráðs.
Samþykkt. SFS22060178
Kl. 13.25 tekur Edith Oddsteinsdóttir sæti á fundinum.
Lögð er fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðs:
Lagt er til að Helga Þórðardóttir og Marta Guðjónsdóttir skipi valnefnd íslenskuverðlauna unga fólksins í bókmenntaborginni Reykjavík.
Samþykkt. SFS22060179
Lögð fram Samstarfsyfirlýsing Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna um lífsgæði í Reykjavík ásamt fyrstu aðgerðaáætlun Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks, Flokks fólksins og Vinstri grænna á grundvelli samstarfsyfirlýsingar. SFS25030024
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Mikill metnaður fyrir börn og fjölskyldur í borginni einkennir þessa yfirlýsingu og þær tillögur sem samþykktar voru strax á síðasta borgarstjórnarfundi. Megináhersla þar er á fjölgun leikskólaplássa, bættar starfsaðstæður í leik- og grunnskólum, fjölgun sérfræðinga í skólakerfinu eins og talmeinafræðinga og sálfræðinga, eflingu skólabókasafna og íslenskukennslu barna með annað móðurmál en íslensku.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Samstarfsyfirlýsing nýs meirihluta borgarstjórnar hefur að geyma mörg fögur fyrirheit. Á hinn bóginn er yfirlýsingin bæði ófjármögnuð og ókostnaðarmetin ásamt því að engin mælanleg markmið koma fram. Hin svokallaða aðgerðaráætlun sem snýr að skóla- og frístundamálum er rýr þegar kemur að því að leysa biðlistavandann í leikskólum og eftir annarri þjónustu á vegum skóla- og frístundasviðs. Í stað þess að strax sé farið í að leysa vandann með fjölbreyttum lausnum, svo sem að fara í samstarf við fyrirtæki og stofnanir um rekstur leikskóla og hefja heimgreiðslur til foreldra meðan beðið er eftir leikskólaplássi, á spretthópur kjörinna fulltrúa að leita lausna á hvernig fjölga eigi leikskólaplássum. Ekki er minnst einu orði á það hvernig eigi að takast á við þann alvarlega vanda að í lok 10. bekkjar geti nær helmingur drengja ekki lesið sér til gagns og þriðjungur stúlkna. Ljóst er af ofangreindu að ekki á að taka með festu á þeim vanda sem steðjar að starfsemi sem fellur undir skóla- og frístundaráð.
Áheyrnarfulltrúar leikskólastjóra og starfsfólks í leikskólum leggja fram svohljóðandi bókun:
Við köllum eftir því að Reykjavíkurborg og skóla- og frístundasvið borgarinnar fari að gera áætlanir um hvaða leiðir séu til að fjölga leikskólakennurum við leikskóla borgarinnar. Það verður ekki gert með einkarekstri leikskóla né fjölgun plássa í leikskólum. Borgin þarf að fara að marka sér skýra sýn og stefnu á hvað þarf að gera varðandi starfsumhverfi leikskóla og hvernig megi gera starfsaðstæður kennara meira aðlaðandi. Sveitarfélögin í kringum okkur hafa farið í að marka sér stefnu í þeim málum sbr. Hafnarfjarðarleiðina og Kópavogsleiðina. Staðan í dag er sú að leikskólastjórar í þessu sveitarfélögum fá betri kjör og starfsaðstæður kennara í þessum bæjarfélögum hafa verið jafnaðar við starfsaðstæður grunnskólakennara með t.d. harðari aðgerðum á skráningardögum. Við bendum á að Fjarðarbyggð hefur einnig stigið þetta skref núna eftir áramót, sett á hátt gjald fyrir foreldra sem þurfa að nýta skráningardaga í vetrarfríum, jólafríum og páskafríum. Við hvetjum ykkur til að hætta að telja gæði leikskólastarfs í plássum fyrir börn og fara að leggja í metnaðarfullar aðgerðir til að fjölga leikskólakennurum sem hafa lagt á sig 5 ára háskólanám til að sinna okkar viðkvæmasta fólki við að taka sín fyrstu skref sem þátttakendur í samfélaginu.
Áheyrnarfulltrúi kennara í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er jákvætt að útgefið sé að vilji sé til að vinna að bættum starfsaðstæðum og vinnuumhverfi starfsfólks í samstarfi við fólkið á vettvangi. Kennarar hafa kallað eftir því að sérfræðingum innan skólanna verði fjölgað til að þörfum nemenda verði mætt enn betur. Auk þess hafa kennarar kallað eftir því að hópastærðir verði skoðaðar og námsefnisútgáfa stórbætt. Einnig er þörf á áframhaldandi þróun íslenskuvera og hvort sérstök hegðunarúrræði þurfi að bæta eða fjölga. Forystan í borginni getur beitt sér fyrir því að biðlistar í úrræði styttist og þrýst á að vinnu við námsefnisgerð verði komið á flug auk ráðninga fleiri sérfræðinga inn í skólana. Verður aukið fjármagn sett í þessar fyrirhuguðu breytingar og hefur verið útlistað hvað sé sett í forgang og hvernig þessu verði framfylgt?
Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva í Reykjavík þakkar fyrir kynningu á fyrstu aðgerðaáætlun Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks, Flokks fólksins og Vinstri grænna á grundvelli samstarfsyfirlýsingar. Á skóla- og frístundasviði starfa um 1000 starfsmenn á sviði frístunda í frístundamiðstöðvum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum. Mikilvægt er að gleyma ekki þeim stóra hópi þegar skoða á starfsaðstæður í skóla- og frístundastarfi. Ánægjulegt er að skoða eigi vinnuumhverfi í samstarfi við starfsfólk og stéttarfélög. Við minnum á að stór hópur starfsfólks í skóla-og frístundastarfi er í öðrum stéttarfélögum en Kennarasambandinu sem eiga fullt erindi upp á dekk í samráð um bættar vinnuaðstæður, börnum, unglingum og starfsfólki til heilla. Mikilvægt er að auka opnun félagsmiðstöðva fyrir aldurshópinn 10-16 ára en mikið ákall er um aukna þjónustu frá samfélaginu. Styrking þjónustu á 1. stigi hefur mikið forvarnargildi og snemmtækur stuðningur getur sparað mikið fjármagn til framtíðar.
Fylgigögn
Lögð fram og kynnt skýrslan Skóla- og fjölskyldumiðstöð fyrir fólk frá Gaza vorið 2024, dags. í október 2024. SFS25030025
Dagbjört Ásbjörnsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar samstarfsflokkanna í borgarstjórn eru afar ánægðir með hvernig þetta verkefni hefur gengið. Hér er um óvenjulegar aðstæður að ræða og sérlega viðkvæmar. Fyrir Reykjavíkurborg er þetta mikilvæg reynsla og margt á eftir að þróast frekar. Það er ánægjuefni að bæði foreldrar, börn og starfsfólk hafa lýst yfir mikilli ánægju með utanumhald verkefnisins. Tekið er undir að úrræði eins og þetta er brýnt til þess að stuðla að farsælli byrjun í íslensku samfélagi fyrir fólk í svo viðkvæmri stöðu.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Ástæða er til að þakka fyrir kynningu á skóla- og fjölskyldumiðstöð fyrir fólk frá Gaza vorið 2024. Útkoma verkefnisins lofar góðu og mikilvægt er að draga lærdóm af framkvæmd þess, bæði það sem vel hefur gengið og það sem betur mætti fara, svo sem hvernig best sé að auka virkni foreldra barna af erlendu bergi brotið í íslensku skólasamfélagi. Brýnt er til framtíðar litið að íslenska ríkið standi ávallt straum af kostnaði við að þróa verkefni af þessu tagi.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Framsóknar lýsir ánægju með fjölskyldumiðstöðina sem er verkefni sem sett var upp til að mæta þeim sem koma til landsins á flótta. Nú er hægt að meta ávinning af verkefninu og er það gott. Mikilvægt er að þróa og standa vörð um starfið með þarfir barna í huga. Sérstaklega er mikilvægt að horfa til þess hvernig aðlögun að samfélaginu og í skólum og frístundastarfi tekst til í framhaldinu.
Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra leggur fram svohljóðandi bókun:
Við fögnum þessu verkefni, skóla- og fjölskyldumiðstöð, og hvetjum til að það verði skoðað að útvíkka þetta úrræði enn frekar. Staðan í dag er sú að börn sem koma erlendis frá fara beint inn á biðlista í leikskóla og raðast oft ofar á listann sökum aldurs. Með því að bjóða fyrstu mánuðina upp á úrræði sem þetta og að bæði börn og foreldrar fengju þannig betri innsýn í íslenskt skólakerfi þá væri ýmis vandi minni í upphafi skólagöngu þessara barna. Sum börnin hafa verið litið aðskilin foreldrum og eiga svo að fara að vera 8 tíma á leikskóla eða fara beint inn í skólana með litla þekkingu á okkar samfélagi, tungumáli og ritmáli. Við teljum að með því að bjóða upp á úrræði sem þetta sem fyrstu viðkomu barnanna og foreldranna værum við að taka betur á móti nýjum íbúum landsins og gefa þeim betra tækifæri til að læra á okkar góða samfélag, inngilding þeirra í samfélagið yrði betri. Börn fengju svo flutningsumsókn inn í leikskólann um leið og þau hafa náð að fá örlitla innsýn í skólasamfélagið.
Áheyrnarfulltrúi kennara í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun:
Kennarar velta fyrir sér hvernig skólakerfið okkar getur tekið sem best utan um börn á flótta og verkefnið sem kynnt var á fundinum virkilega vel til þess fallið að styðja við fjölskyldur á flótta sem flytjast til landsins. Ekki er nóg að veita þeim móttöku þegar þau koma til landsins og veita stuðning eingöngu þá heldur þurfum við að hugsa stuðninginn til langs tíma. Brúarsmiðir gegna mjög mikilvægu hlutverki í samskiptum við nemendur og fjölskyldur þeirra. Börn á flótta hafa gengið í gegnum mikil áföll á stuttri lífsleið og þurfa því utanumhald, stuðning og sálfræðiaðstoð. Mikilvægt er að kerfið okkar sé í stakk búið til að bjóða börnunum og fjölskyldum þeirra upp á viðeigandi stuðning og sálfræðiaðstoð. Slík aðstoð er beintengd farsældarlögunum og verklagi tengdu þeim.
Fylgigögn
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. janúar 2025, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. febrúar 2025, varðandi umsagnir um tillöguna:
Lagt er til að starfseiningar Dalskóla; annarsvegar grunnskóli og frístundaheimili og hinsvegar leikskóli verði aðgreindar frá og með skólaárinu 2025 - 2026. Grunnskólinn verður eftir sem áður fyrir nemendur í 1. – 10. bekk og verði frístundaheimili samrekið með grunnskólanum. Óbreytt er að leikskólinn er fyrir börn á aldrinum 12 mánaða til 6 ára. Við hvorn skólann verði skólastjóri. Báðar stöður verði auglýstar á vormánuðum 2025. Við breytinguna njóti skólarnir stuðnings vinnuhóps sem vinnur að farsælum aðskilnaði eininganna. Hópurinn verði skipaður núverandi skólastjórnendum, fulltrúum í skólaráði (foreldra, kennara, starfsmanna og nemenda), fulltrúa frá mannauðsþjónustu, skrifstofu grunnskólamála, skrifstofu leikskólamála og fjármálaþjónustu skóla- og frístundasviðs. Lagt er til að hópurinn taki til starfa nú þegar og starfi þar til breytingarnar hafa formlega gengið eftir.
Greinargerð fylgir.
Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. febrúar 2025:
Lagt er til að starfseiningar Dalskóla; annarsvegar grunnskóli og frístundaheimili og hinsvegar leikskóli verði aðgreindar frá og með skólaárinu 2025 - 2026. Grunnskólinn verður eftir sem áður fyrir nemendur í 1. – 10. bekk og verði frístundaheimili samrekið með grunnskólanum. Óbreytt er að leikskólinn er fyrir börn á aldrinum 12 mánaða til 6 ára. Við hvorn skólann verði skólastjóri. Báðar stöður verði auglýstar á vormánuðum 2025. Við breytinguna njóti skólarnir stuðnings vinnuhóps sem vinnur að farsælum aðskilnaði eininganna. Hópurinn verði skipaður núverandi skólastjórnendum, fulltrúum í skólaráði (foreldra, kennara, starfsmanna og nemenda), fulltrúa frá mannauðsþjónustu, skrifstofu grunnskólamála, skrifstofu leikskólamála og fjármálaþjónustu skóla- og frístundasviðs. Lagt er til að hópurinn taki til starfa nú þegar og starfi þar til breytingarnar hafa formlega gengið eftir. Staðsetning stjórnunar frístundaheimilisins verði skoðuð sérstaklega, hvort frístundaheimilið heyri áfram undir grunnskólann eða færist undir stjórn frístundamiðstöðvarinnar Brúarinnar. Niðurstöður þeirrar skoðunar verði lagðar fyrir skóla- og frístundaráð.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS24110083
Fylgigögn
Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 8. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 27. janúar 2025:
Lagt er til að staða biðlista eftir plássi á frístundaheimili verði lögð fram á næsta reglulega fundi skóla- og frístundaráðs sem fyrirhugaður er 10. febrúar 2025.
Samþykkt. SFS25010157
Fylgigögn
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 28. febrúar 2025, um stöðu biðlista í frístundaheimili 28. febrúar 2025. SFS25010157
Fylgigögn
Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 9. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 27. janúar 2025:
Lagt er til að staða biðlista eftir leikskóla verði lögð fram á næsta reglulega fundi skóla- og frístundaráðs sem fyrirhugaður er 10. febrúar 2025.
Samþykkt. SFS25010158
Fylgigögn
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. mars 2025, um stöðu biðlista í leikskóla 3. mars 2025. SFS25010158
Fylgigögn
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 23. janúar 2025, ásamt nýjum reglum Reykjavíkurborgar um úthlutun fjármagns vegna stuðnings í leikskólum og reglum um úthlutun fjármagns vegna stuðnings í leikskólum frá 7. júní 2016:
Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs leggur til að samþykktar verði breytingar á reglum um úthlutun fjármagns vegna stuðnings í leikskólum.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS25010096
Fylgigögn
Lögð fram tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. mars 2025, um breytingar á reglum um þjónustu frístundaheimila og reglum um þjónustu félagsmiðstöðva ásamt breyttum reglum um þjónustu frístundaheimila, reglum um þjónustu frístundaheimila frá febrúar 2023, breyttum reglum um þjónustu félagsmiðstöðva og reglum um þjónustu félagsmiðstöðva frá júní 2024.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS25020020
Fylgigögn
Lögð fram tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. febrúar 2025, um breytingar á reglum um niðurgreiðslur vegna barna hjá dagforeldrum ásamt breyttum reglum um niðurgreiðslur vegna barna hjá dagforeldrum og reglum um niðurgreiðslur vegna barna hjá dagforeldrum frá desember 2023.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt. Vísað til borgarráðs. SFS25020021
Fylgigögn
Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um niðurstöður æskulýðsrannsókna, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. nóvember 2024. Einnig lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 9. janúar 2025. MSS24110075
Fylgigögn
Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. mars 2025, um embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, 11 mál. SFS22080009
Fylgigögn
Fram fer umræða um fréttir af vettvangi skóla- og frístundastarfs. SFS24080154
Kl. 15.40 víkur Ólafur Brynjar Bjarkason af fundinum.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Þar sem húsnæðisvandi Hjallastefnunnar hefur á þessu kjörtímabili ekki verið til umræðu í skóla- og frístundaráði telja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins nauðsynlegt að á næsta fundi ráðsins verði lagðar fram þær tímabundnu lausnir sem unnið er að á vettvangi skóla- og frístundasviðs. Á sama fundi leggi sviðið einnig fram framtíðarlausn fyrir húsnæðisvanda skólastarfs Hjallastefnunnar.
Frestað. SFS25030053
Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi tillögu:
Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva í Reykjavík óskar eftir því að félagsmiðstöðinni 111 í Breiðholti verði fundið húsnæði sem fyrst. Félagsmiðstöðin þurfti að fara út úr húsnæði sínu vegna rakaskemmda og er ekki komin með aðstöðu. Áríðandi er að tryggja félagmiðstöðinni aðstöðu sem fyrst til að halda úti opnunum í viðeigandi húsnæði sem samræmist starfi félagsmiðstöðva. Ástand í málefnum unglinga hefur verið viðkvæmt og því mikilvægt að unglingar úr Hólabrekkuskóla og Fellaskóla geti sótt félagsmiðstöð í hverfinu þar sem fram fer faglegt frístundastarf í öruggu umhverfi. Áheyrnarfulltrúi leggur til að starfsfólk Reykjavíkurborgar þvert á svið ásamt kjörnum fulltúrum leggist öll á eitt við að finna félagsmiðstöðinni 111 rými til lengri tíma.
Frestað. SFS25030058
**Fundi slitið kl. 15:56**
Helga Þórðardóttir Alexandra Briem
Árelía Eydís Guðmundsdóttir Helgi Áss Grétarsson
Marta Guðjónsdóttir Sabine Leskopf
Stefán Pálsson
**PDF útgáfa fundargerðar Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 10. mars 2025**