Reykjavíkurborg
Endurskoðunarnefnd - Fundur nr. 325
**Endurskoðunarnefnd**
Ár 2025, föstudaginn 28. mars var haldinn 325. fundur endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar. Fundurinn var haldinn með rafrænum hætti, með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, og hófst kl. 15:04. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Lárus Finnbogason, Einar S. Hálfdánarson, Sigrún Guðmundsdóttir og Sunna Jóhannsdóttir. Einnig tók sæti á fundinum Ingunn Ólafsdóttir, starfandi innri endurskoðandi. Fundarritari var Kristín Henley Vilhjálmsdóttir.
**Þetta gerðist:**
Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 17.03.2025, við fyrirspurn Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga, dags. 02.01.2025. IER25010001
Lögð fram svohljóðandi bókun Lárusar Finnbogasonar, Sigrúnar Guðmundsdóttur og Sunnu Jóhannsdóttur:
Endurskoðunarnefnd fjallar reglulega um reikningsskil Reykjavíkurborgar og tengdra félaga. Reikningsskil Félagsbústaða hf. hafa þar verið til sérstakrar umfjöllunar. Einnig hefur verið fjallað um reikningsskil Félagsbústaða hf. á vettvangi Reikningsskila- og upplýsinganefndar sveitarfélaga, sbr. álit nefndarinnar nr. 1/2020. Að mati endurskoðunarnefndar eru reikningsskil Reykjavíkurborgar og tengdra félaga í samræmi við þau lög og reglur sem eiga við um reikningsskil sveitarfélaga og þeirra félaga sem mynda samstæðu Reykjavíkurborgar. Þó skal tekið fram að ósamræmi kann að vera varðandi afmörkun og túlkun einstakra skilgreininga í lögum annars vegar og reglugerðum hins vegar, sem getur haft áhrif á gerð reikningsskila í tilteknum tilvikum.
Lögð fram svohljóðandi bókun Einars S. Hálfdánarsonar:
Mikils misskilnings gætir í svari Reykjavíkurborgar til
[reikningsskila]- og upplýsinganefndar sveitarfélaga. ESA hefur aldrei fjallað um reikningsskil Reykjavíkurborgar, heldur einungis reikningsskil Félagsbústaða hf. Enda falla reikningsskil sveitarfélaga ekki undir ákvæði EES samningsins. Og svo að því sé haldið til haga þá byggði ESA niðurstöðu sína á að einstök aðildarríki evrópska efnahagsvæðisins mættu túlka alþjóðlega reikningsskilastaðla [og þannig þyrfti ekki að gæta samræmis milli landa], hvað svo sem mönnum kann að sýnast um þann rökstuðning. Þess vegna tók ESA undir sjónarmið íslenska ríkisins, en kvörtunin beindist gegn ríkinu.
Tekið skal fram að þáverandi sveitarstjórnarráðherra staðfesti að „hvorki ráðuneytið né reikningsskila- og upplýsinganefnd sveitarfélaga hefur tekið ákvörðun um að veita sveitarfélögum undanþágu við gerð samstæðureiknings eins og þeim ber að gera skv. 61. gr. sveitarstjórnarlaga“, sjá
[https://www.althingi.is/altext/151/05/l03141835.sgml](https://www.althingi.is/altext/151/05/l03141835.sgml). Sú aðferð sem Reykjavíkurborg viðhefur, að leggja ekki fram eiginlegan samstæðureikning, heldur samantekin reikningsskil, er sem sé án lagastoðar.
Af framangreindu leiðir að þótt Reykjavíkurborg sé ekki félag í skilningi laga ber borginni að gera hefðbundinn samstæðureikning í samræmi við ákvæði laga um ársreikninga. Framangreindur misskilningur um álit ESA og rangar forsendur um skyldur borgarinnar til gerðar samstæðureiknings leiða til ýmissa missagna, jafnvel útúrsnúninga, í svari borgarinnar.
Fylgigögn
Önnur mál
- Samþykkt er að óska eftir fundi með Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga.
**Fundi slitið kl. 15:50**
Lárus Finnbogason Einar S. Hálfdánarson
Sigrún Guðmundsdóttir Sunna Jóhannsdóttir
**PDF útgáfa fundargerðar Fundargerð endurskoðunarnefndar 28. mars 2025**