Reykjavíkurborg
Borgarstjórn - Borgarstjórn 01.04.2025
==
==
[Borgarstjórn - Borgarstjórn 01.04.2025
](/fundargerdir/borgarstjorn-borgarstjorn-01042025)
**Borgarstjórn**
Ár 2025, þriðjudaginn 1. apríl, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sanna Magdalena Mörtudóttur, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Einar Þorsteinsson, Friðjón R. Friðjónsson, Guðný Maja Riba, Helgi Áss Grétarsson, Helga Þórðardóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Kristinn Jón Ólafsson, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sara Björg Sigurðardóttir, Skúli Helgason og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
**Þetta gerðist:**
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki eftirfarandi tillögu til að styðja við byggðaþróun og sem undirbúning uppfærslu aðalskipulags með áherslu á samgönguinnviði og framtíðaruppbyggingu til næstu áratuga. 1. Uppfærsla skipulags í Úlfarsárdal. Hefja skipulagsvinnu fyrir fyrsta áfanga nýrrar uppbyggingar í Úlfarsárdal með áherslu á svæðið sem nefnist Hallar, Hamrahlíðarlönd og suðurhlíðar Úlfarsfells auk annarra svæða innan vaxtarmarka. (Hallar+svæði innan vaxtarmarka). 2. Sviðsmyndagreining á mögulegum uppbyggingarsvæðum. Framkvæma sviðsmyndagreiningu á mögulegum uppbyggingarsvæðum í Reykjavík. Slíkt verði gert í tengslum við fyrirhugaða uppbyggingu og fjárfestingu í samfélagslegum innviðum, veitu- og samgöngukerfum, þar á meðal hágæða almenningssamgöngum, Borgarlínu og Sundabraut. Í því samhengi verði framkvæmd forathugun á uppbyggingarmöguleikum á svæðum eins og Geldinganesi, Víðinesi, Kjalarnesi og öðrum sambærilegum svæðum. 3. Sviðsmyndagreining um þróun Faxaflóahafna til lengri framtíðar og valkostagreiningar um staðsetningu valinna þátta í starfsemi hafnarinnar. Unnin verði sviðsmyndagreining um þróun hafnarinnar til lengri tíma litið og hafinn undirbúningur valkostagreininga fyrir valda þætti í starfsemi hafnarinnar, í samstarfi umhverfis- og skipulagssviðs og Faxaflóahafna. Verkefnið verði mótað með hliðsjón af yfirstandandi skipulagsvinnu vegna Sundabrautar og þróun atvinnusvæða á Álfsnesi. Reykjavík er stærsta hafnarborg landsins og viljum við tryggja að íbúðauppbygging og hafnarstarfsemi fari vel saman til langs tíma.
Greinargerð fylgir tillögunni.
- Kl. 12:42 tekur Andrea Helgadóttir sæti á fundinum og Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir víkur af fundi.
Samþykkt.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25040001
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Húsnæðisuppbygging snýst ekki eingöngu um fjölda íbúða, hún snýst um lífsgæði, mannlíf og styrkingu samfélags. Fyrsta tillagan snýr að uppfærslu skipulags í Úlfarsárdal. Með því að hefja skipulagsvinnu fyrir fyrsta áfanga nýrrar uppbyggingar á þessu svæði er verið að opna á nýja möguleika en einnig styrkja okkar samfélagslegu innviði. Önnur tillagan varðar sviðsmyndagreiningu á mögulegum á uppbyggingarsvæðum í Reykjavík. Með því að framkvæma þessa greiningu getum við tryggt að uppbygging okkar taki mið af íbúafjölgun og fjölbreyttum þörfum almennings. Þriðja tillagan snýr að þróun Faxaflóahafna til lengri tíma litið. Reykjavík er stærsta hafnarborg landsins, og við þurfum að tryggja að íbúðauppbygging og hafnarstarfsemi fari vel saman. Málinu verður vísað til skrifstofu borgarstjóra og borgarritara og því fundinn farvegur í samræmi við tillögu.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna því vissulega að loks reynist vilji til að skoða framtíðaruppbyggingu á svæðum í Úlfarsárdal, Geldinganesi, Kjalarnesi og Álfsnesi, en fulltrúarnir hafa ítrekað lagt til skipulag húsnæðisuppbyggingar á þessum svæðum. Húsnæðisvandinn er viðvarandi og hann verður ekki leystur án þess að brjóta nýtt land. Fulltrúarnir sakna þess þó að í tillögunni sé brugðist við bráðavanda á húsnæðismarkaði og kynntar lausnir sem svarað geta almennri eftirspurn á húsnæðimarkaði á allra næstu árum.
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Framsókn styður allar góðar hugmyndir sem geta stuðlað að húsnæðisuppbyggingu. Framsókn óttast þó að áhersla á að hraða verkefninu sé ekki í forgangi og að með þessari umfangsmiklu vinnu sé verið að ýta málinu fram yfir næstu kosningar enda augljóst af fyrri yfirlýsingum samstarfsflokka meirihlutans að mikill ágreiningur er um hvar í borginni eigi að byggja.
Borgarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi Viðreisnar lýsir yfir ánægju sinni með samstarfsyfirlýsingu borgarinnar við verkalýðshreyfinguna en saknar þess að lífeyrissjóðir séu ekki við borðið. Viðreisn leggur áherslu á að hlutföll íbúða og fjölbreytileiki séu samkvæmt gildandi húsnæðisáætlun. Viðreisn leggur þunga áherslu á að passað verði upp á að Reykjavíkurborg missi ekki frá sér skipulags- og uppbyggingaráherslur og fangar því að fyrirhugað sé að horfa eigi nú til langs tíma umfram 2040 þegar núverandi aðalskipulag rennur út. Gott mál er að skoða sviðsmyndagreiningu til langs tíma fyrir Reykjavíkurhafnir enda mikilvægt að skýr sýn skapist um framtíð hafnanna innan borgarinnar. Fyrirliggjandi eru risaverkefni, svo sem lega Sundabrautar og tilfærsla gámahafna og fleira sem snýr að breytingum í höfninni. Mikilvægt er að valkostagreining og/eða sviðsmyndagreining verði unnin hratt og örugglega til að hægt verði að bregðast við þegar lega Sundabrautar liggur fyrir.
Fylgigögn
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að leita samstarfs við Vegagerðina um upphaf rannsókna á möguleikum til frekari jarðgangnagerðar í Reykjavík. Fjölbreyttir möguleikar verði kannaðir en sérstaklega verði litið til fjölfarinna þjóðvega í þéttbýli sem skera sundur íbúðahverfi. Samhliða verði umhverfis- og skipulagssviði falið að greina tækifærin til að skapa mannvænna umhverfi á yfirborði, þar sem stofnvegir hafa verið færðir neðanjarðar.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Tillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar. MSS25040002
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Það eru vonbrigði að meirihluti borgarstjórnar hafi hvorki vilja né metnað til að leita leiða til að leysa úr verstu umferðarteppum borgarinnar, gera borgarlandið mannvænna, bæta hljóðvist og minnka svifryk. Höfnun tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um rannsóknir á möguleikum til jarðgangnagerðar í borgarlandinu sýnir hvernig meirihlutinn hefur engan vilja til að horfa til leiða sem eru sannreyndar í nágrannalöndum, stórum sem smáum. Með því að leiða í jörð þungar umferðaræðar sem skera sundur íbúðahverfi, líkt og Miklubraut, Hringbraut vestan Bjarkargötu og Bústaðaveg, svo dæmi séu nefnd, er tækifæri til að skapa mannvænna umhverfi á yfirborði. Þá gefast líka tækifæri til að bæta hljóðvist fyrir borgarbúa og um leið nýta borgarlandið betur til afþreyingar. Þá geta öflugri samgöngur og styttri ferðatími jafnframt leitt af sér gríðarlegan efnahagslegan ávinning, styrkt atvinnulíf og stutt við verðmætasköpun í samfélaginu. Þetta vill meirihluti vinstri flokkanna ekki skoða heldur hjakkast áfram í hjólförum dugleysis og verkstols.
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Framsókn telur sjálfsagt mál að hefja samtal við Vegagerðina um frekari jarðgangnagerð í Reykjavík en minnir þó á að eitt stærsta hagsmunamál borgarbúa þegar kemur að jarðgöngum felst í Miklubrautargöngum sem eru hluti af samgöngusáttmálanum. Þá má minna á að enn er unnið að útfærslu Sundabrautar og mikilvægt að halda valkosti um jarðgöng þar opnum. Samtal um aðrar framkvæmdir mega ekki riðla þessum áformum enda hefur verið sýnt fram á að þær tryggja best betra flæði umferðar.
Fylgigögn
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfultrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að nýta samráðsgátt til að leita hugmynda meðal starfsfólks borgarinnar að því hvernig nýta má fjármuni og tíma starfsfólks með sem bestum hætti. Jafnframt verði leitað til íbúa borgarinnar um að taka þátt í hugmyndasöfnuninni.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Lögð fram svohljóðandi viðaukatillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Hugmyndasöfnun ljúki eigi síðar en 22. maí 2025 og frumniðurstöður verði kynntar borgarráði eigi síðar en 5. júní 2025.
Viðaukatillagan er felld með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn ellefu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar.
Tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna er samþykkt.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25040003
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Framsókn undrast vandræðagang meirihlutans varðandi þessa tillögu sem var að meginefni samþykkt fyrir mánuði síðan. Eina viðbótin felst í því að leita til almennings eftir hagræðingartillögum. Framsókn styður að leitað sé leiða til hagræðingar með þessum hætti en beinir því til meirihlutans að horfa sér nær og axla sjálfur ábyrgð á rekstri borgarinnar. Nýr meirihlutasáttmáli felur í sér væntingar um mikil aukin útgjöld. Réttara væri því að meirihlutinn legði einnig sjálfur til tillögur að hagræðingum. Það að meirihlutinn skuli hafa fellt tillögu um að hagræðingartillögum skuli skilað fyrir 1. júní sýnir að þeim liggur ekki á að hagræða.
Fylgigögn
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að vinna við framtíðarskipulag á því svæði í Öskjuhlíð þar sem tré hafa verið felld vegna Reykjavíkurflugvallar verði unnin í samstarfi við skóla- og frístundasvið og menningar- og íþróttasvið og miði að því að þar verði leik- og útivistarsvæði fyrir alla aldurshópa.
Greinargerð fylgir tillögunni.
- Kl. 16:50 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum og Sandra Hlíf Ocares tekur sæti.
Samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar að vísa tillögunni frá. MSS25040004
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihlutinn er með frávísun sinni í raun og veru að kjósa gegn því að leik- og útivistarsvæði í Öskjuhlíðinni verði skipulagt í samstarfi við skóla- og frístundasvið og menningar- og íþróttasvið án þess að koma með haldbæran rökstuðning gegn samstarfi við fagsviðin. Þetta gerir meirihlutinn þrátt fyrir að segja í sal borgarstjórnar að hann telji að slíkt samstarf æskilegt. Hér verður því ekki annað lesið úr afgreiðslu meirihlutans en að verið sé að vísa málinu frá vegna þess að það kemur frá minnihlutanum. Við í Framsókn sjáum tækifæri til þess að skipuleggja það svæði í Öskjuhlíðinni, sem þurfti að fella tré á, sem fallegt leik- og útivistarsvæði fyrir alla aldurshópa og teljum heppilegast gera það í samstarfi við fagsviðin svo að framtíðarskipulag svæðisins taki mið af þekkingu sviðanna og möguleikar til samstarfs við skóla og frístund borgarinnar séu kannaðir frekar. Það er leitt að meirihlutinn sjái ekki tækifærin sem felast í framtíðarskipulagi svæðisins.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Unnið hefur verið að því í nokkur ár að gera Öskjuhlíðina að skemmtilegra og aðgengilegra útivistarsvæði fyrir borgarbúa. Stígar hafa verið lagðir og upplifunarhringur fyrir fótgangandi vegfarendur í kringum hábunguna hefur verið undirbúinn. Í vinnunni er lögð áhersla á að gera ísaldarminjar og einnig minjar frá hernáminu á síðustu öld sýnilegar og aðgengilegar. Leiðarljós þessa starfs er sigurtillaga arkitektastofunnar Landslag frá 2013 sem kallast Perlufestin. Skoðun er þegar hafin á því hvernig útivistarsvæði innan trjáfellingargeirans sem ruddur var að kröfu Samgöngustofu og ISAVIA verður útfært.
Borgarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er afar mikilvægt að hanna nýtt útivistarsvæði í Öskjuhlíðinni eftir að tré hafa verið felld til að opna flugbrautina á Reykjavíkurflugvelli. Einnig þarf að taka tillit til framtíðaráforma um grisjun. Viðreisn leggur áherslu á að við hönnun svæðisns verði horft til aðgengis fyrir öll.
Fylgigögn
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Viðreisnar:
Lagt er til að borgarstjóra verði falið að ganga til samninga við yfirvöld um að færa umferð einkaþotna og almennt þyrluflug frá Reykjavíkurflugvelli hið fyrsta. Einnig er lagt til að viðræður verði hafnar á ný um að staðið verði við ákvæði samnings síðan 23. október 2013 undirrituðum af þáverandi borgarstjóra og innanríkisráðherra þar sem segir m.a. að innanríkisráðuneytið og Isavia hafi forgöngu um að kennslu- og einkaflugi verði fundinn nýr staður í nágrenni borgarinnar. Markmiðið með tillögunni er að skapa sátt um áætlunar- og sjúkraflug næstu 15-20 árin á Reykjavíkurflugvelli. Markmið tillögunnar er tryggja áætlunar- og sjúkraflugi þá umgjörð sem þarf til næstu 15-20 ára en um leið að draga úr mengun, slysahættu og ónæði fyrir íbúa í nágrenni flugvallarins.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Lögð fram svohljóðandi breytingatillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Viðreisnar, Flokks fólksins og Vinstri grænna:
Lagt er til að borgarstjóra verði falið að beita sér fyrir því að færa umferð einkaþotna og almennt kennslu- og þyrluflug frá Reykjavíkurflugvelli hið fyrsta og taka aftur upp samtal við ríkið á samkomulagi sem gert var 25. október 2013 sem undirritað var af þáverandi borgarstjóra og innanríkisráðherra. Í því stendur m.a. að innanríkisráðuneytið og Isavia hafi forgöngu um að kennslu- og einkaflugi verði fundinn nýr staður í nágrenni borgarinnar. Markmið tillögunnar er að skapa sátt og þá umgjörð um áætlunar- og sjúkraflug á Reykjavíkurflugvelli sem þarf þar til nýr staður er fundinn en um leið að draga úr mengun, slysahættu og ónæði fyrir íbúa í nágrenni flugvallarins.
Breytingatillagan er samþykkt með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Viðreisnar, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Tillagan er samþykkt svo breytt með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Viðreisnar, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25040005
Borgarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:
Viðreisn fagnar því að vel var tekið í tillögu borgarstjórnarflokksins um að borgarstjóra verði falið að beita sér fyrir því að færa umferð einkaþotna og almennt kennslu- og þyrluflug frá Reykjavíkurflugvelli hið fyrsta og taka aftur upp samtal við ríkið á samkomulagi sem gert var 25. október 2013 sem undirritað var af þáverandi borgarstjóra og innanríkisráðherra. Í því stendur m.a. að innanríkisráðuneytið og Isavia hafi forgöngu um að kennslu- og einkaflugi verði fundinn nýr staður í nágrenni borgarinnar. Markmið tillögunnar er að skapa sátt og þá umgjörð um áætlunar- og sjúkraflug á Reykjavíkurflugvelli sem þarf þar til nýr staður er fundinn en um leið að draga úr mengun, slysahættu og ónæði fyrir íbúa í nágrenni flugvallarins. Við fögnum því að tillagan hafi verið samþykkt með áorðnum breytingum og nú sé hægt að vinna í átt að sátt og uppbyggingu fyrir sjúkra- og áætlunarflug næstu árin þangað til að nýtt flugstæði verður fundið fyrir nýjan innanlandsflugvöll.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Mikilvægt er að tryggja áætlunar- og sjúkraflugi þá umgjörð sem hún þarf en finna þarf umferð einkaþotna, kennsluflugs og almenns þyrluflugs frá Reykjavíkurflugvelli annan stað. Íbúar hafa greint frá mikilli hávaðamengun, m.a. í formi þyrluumferðar og útsýnisflugs með ferðamenn. Slíkt hefur komið niður á lýðheilsu íbúanna. Við því þarf að bregðast.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins hefði þótt skynsamlegast ef tillagan hefði falið í sér að settur væri á laggirnar starfshópur með aðkomu Isavia, Heilbrigðiseftirlitsins og annarra hagsmunaaðila að mögulegu staðarvali. Ekki síst þar sem margt hefur breyst síðan samkomulagið frá 2013 var gert. Til dæmis er kennsluflug orðið fátítt á Reykjavíkurflugvelli og þeir staðir, Hólmsheiði og Hvassahraun, sem hugmyndir voru um að færa þyrlu- og einkaflug á og nefndir voru í nýlegri skýrslu Cowi fyrir skrifstofu atvinnu- og borgarþróunar um þyrluflug teljast ekki lengur ákjósanlegir. Annars vegar vegna mótmæla íbúa og hins vegar jarðhræringa og eldsumbrota. Fyrir vikið er fátt um staði fyrir borgarstjóra til að beita sér fyrir að umferð einkaþotna og almennt kennslu- og þyrluflug verði færð á. Til að tillaga Viðreisnar gangi eftir þarf að hefja staðarleit að nýju og þá er mikilvægt að hagaðilar eigi aðkomu að því starfi. Því óskuðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eftir að tekin yrði með afbrigðum á dagskrá borgarstjórnar tillaga um að stofnaður yrði starfshópur um þyrluflug með þátttöku fulltrúa Isavia, Reykjavíkurborgar og Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Framsókn telur mikilvægt að hefja samtal um færa umferð einkaþotna af Reykjavíkurflugvelli og að öllu þyrluflugi fyrir utan sjúkraþyrluflug verði fundinn annar staður. Fulltrúar Framsóknar taka undir málflutning samtakanna Hljóðmarka sem hafa bent á að útsýnisflug á þyrlum valdi miklu ónæði fyrir íbúa auk þess sem að einkaþotur standi í gangi klukkutímum saman með tilheyrandi hávaða rétt við íbúðabyggð. Að mati Framsóknar er ljóst að Reykjavíkurflugvöllur er ekki á leiðinni úr Vatnsmýri á næstu 15-20 árum enda ný staðsetning fyrir annan flugvöll ekki í sjónmáli. Framtíð kennslu- og einkaflugs hangir saman við staðarval fyrir nýjan Reykjavíkurflugvöll enda krefst það aðstöðu fyrir flugsamfélagið sem stundar einkaflug og sinnir kennsluflugi.
Fylgigögn
Umræðu um þéttingu byggðar í Breiðholti er frestað með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Viðreisnar, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25040006
Fylgigögn
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Framsóknarflokksins:
Lagt er til að borgarstjórn skipi stýrihóp um rafíþróttir í Reykjavík sem hafi það verkefni að móta stefnu Reykjavíkurborgar í rafíþróttum.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Viðreisnar, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að fresta málinu.
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25040007
Fylgigögn
Lagt til að Kjartan Magnússon taki sæti í mannréttindaráði í stað Björns Gíslasonar.
Frestað.
- Kl. 19:25 víkur Einar Þorsteinsson af fundinum og Þorvaldur Daníelsson tekur sæti.
- Kl. 19:44 víkur Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir af fundinum og Birna Hafstein tekur sæti. MSS25020083
Lagt til að Björn Gíslason taki sæti í menningar- og íþróttaráði í stað Kjartans Magnússonar.
Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna:
Í ljósi þess að mikill vafi leikur á því hvort borgarfulltrúinn Björn Gíslason sé hæfur til að taka sæti og taka þátt í afgreiðslu mála á vettvangi menningar- og íþróttaráðs er lagt til að borgarstjórn samþykki að fresta afgreiðslu málsins og fela forsætisnefnd f.h. borgarstjórnar að senda fyrirspurn til innviðaráðuneytisins um álit þess á hæfi borgarfulltrúans til að taka sæti í umræddu ráði. Óskað verði eftir flýtimeðferð á erindi borgarstjórnar hjá ráðuneytinu.
Greinargerð fylgir málsmeðferðartillögunni.
Málsmeðferðartillagan er samþykkt með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Viðreisnar, , Vinstri grænna og Árelíu Eydísar Guðmundsdóttur borgarfulltrúa Framsóknarflokksins gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Magnea Gná Jóhannsdóttir og Þorvaldur Daníelsson borgarfulltrúar Framsóknarflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS22060045
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Sjálfstæðisflokkurinn leggur nú fram í þriðja sinn á kjörtímabilinu tillögu um að Björn Gíslason borgarfulltrúi verði kjörinn í menningar- og íþróttaráð. Fyrir liggur skýrt álit skrifstofustjóra borgarstjórnar og borgarlögmanns um að viðkomandi borgarfulltrúi sé vanhæfur til að taka sæti í ráðinu þar sem hann er formaður Fylkis, eins af stóru íþróttafélögunum í borginni. Klárir hagsmunaárekstrar myndu fylgja þessari skipan. Það kemur líka skýrt fram í álitinu að borgarfulltrúinn telst einnig vanhæfur á grundvelli meginreglu um almennt neikvætt hæfi sem þýðir að borgarfulltrúinn er ekki einungis vanhæfur til að fjalla um mál Fylkis í ráðinu heldur einnig mál sem varða önnur íþróttafélög í borginni, sem teljast vera í samkeppni við það. Síðast en ekki síst er alvarlegt að skipan borgarfulltrúans í menningar- og íþróttaráð kynni að leiða til ógildingar stjórnvaldsákvarðana sem borgarfulltrúinn tæki þátt í sem fulltrúi í ráðinu, sem gæti haft í för með sér skaðabótaskyldu fyrir Reykjavíkurborg. Á þessum forsendum geta fulltrúar samstarfsflokkanna ekki stutt þessa tillögu og lýsa furðu sinni á því að Sjálfstæðisflokkurinn sé tilbúinn með þessum gjörningi að grafa undan ákvarðanatöku fagráðsins um íþróttamálefni og þar með stefna í óvissu íþróttastarfi í borginni, þar með talið barna- og ungmennastarfi í öllum hverfum borgarinnar. Samstarfsflokkarnir leggja til þá málsmeðferð að leitað verði álits innviðaráðuneytisins áður en tillagan verður tekin til formlegrar afgreiðslu og jafnframt verði óskað eftir flýtimeðferð á erindinu.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Sú framganga meirihlutans að koma í veg fyrir kjör Björns Gíslasonar borgarfulltrúa í menningar- og íþróttaráð Reykjavíkur er hæpin. Það er slæmt fordæmi að meirihlutaflokkarnir hlutist til um val fulltrúa minnihlutaflokkanna í ráð og nefndir. Björn er formaður íþróttafélagsins Fylkis og af því leiðir að hann býr yfir sérþekkingu á sviði íþróttamála. Af þeim ástæðum er eðlilegt að hans flokkur vilji njóta krafta hans í fagráði sem fjallar um íþróttamál. Meirihlutinn í borgarstjórn kemur hins vegar í veg fyrir þá kosningu og ber fyrir sig lögfræðiáliti um vanhæfi Björns til að sitja í ráðinu. Nauðsynlegt er að láta reyna á þær forsendur sem fram koma í álitinu en Björn er í sjálfboðastarfi fyrir Fylki og hefur því hvorki tekjur né framfærslu af því starfi sem hann sinnir þar. Til að teljast vanhæfur við töku stjórnvaldsákvarðana þarf viðkomandi að hafa sérstakra persónulegra og verulegra hagsmuna að gæta. Því er ekki til að dreifa í þessu tilviki. Til þess ber einnig að líta að Björn hefur um árabil setið í íþrótta- og tómstundaráði á fyrri kjörtímabilum, án nokkurra athugasemda. Þá getur ákvörðunin um að meina Birni að taka sæti í ráðinu haft víðtæk fordæmisgefandi áhrif, svo sem á minni sveitarfélög.
Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 20. og 27. mars. MSS25010002
Fylgigögn
Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 28. mars, menningar- og íþróttaráðs frá 14. mars, skóla- og frístundaráðs frá 24. mars, stafræns ráðs frá 12. mars, umhverfis- og skipulagsráðs frá 19. og 26. mars og velferðarráðs frá 19. mars.
3. liður fundargerðar forsætisnefndar, samþykkt fyrir stafrænt ráð, er tekinn fyrir og lagðar eru fram svohljóðandi breytingartillögur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Við 2. mgr. 2. gr. Stafrænt ráð ákvarðar og forgangsraðar verkefnum sem lúta að stafrænni framþróun og þeim ábata sem sú framþróun kann að hafa í för með sér samkvæmt fjárfestingaráætlun Reykjavíkurborgar.
Við 1. mgr. 3. gr. Stafrænt ráð fer með það verkefni að auka gagnsæi í stjórnsýslu borgarinnar og styðja við að ákvarðanir séu gagnadrifnar og gera…
Við 2. mgr. 3. gr. bætist aukaliður: 4. Heldur utan um yfirlit yfir lokin verkefni, ábata og fyrir hvaða svið þau voru unnin.
Breytingatillögur Sjálfstæðisflokksins eru felldar með með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.
Borgarfulltrúi Viðreisnar situr hjá við afgreiðslu málsins.
Samþykkt fyrir stafrænt ráð er samþykkt.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25010033
Fylgigögn
[Fundargerð forsætisnefndar frá 28. mars](https://fundur.reykjavik.is/sites/default/files/agenda-items/11%201%201%20Forsaetisnefnd_2803.pdf) [Samþykkt fyrir stafrænt ráð](https://fundur.reykjavik.is/sites/default/files/agenda-items/11%201%202%20Sam%C3%BEykkt%20stafr%C3%A6ns%20r%C3%A1%C3%B0s.pdf) [Fundargerð menningar- og íþróttaráðs frá 14. mars](https://fundur.reykjavik.is/sites/default/files/agenda-items/11%202%201%20FG_M%C3%8D_1403.pdf) [Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 24. mars](https://fundur.reykjavik.is/sites/default/files/agenda-items/11%203%201%20FG_sk%C3%B3la_og_fr%C3%ADstundar%C3%A1%C3%B0_2403.pdf) [Fundargerð stafræns ráðs frá 12. mars](https://fundur.reykjavik.is/sites/default/files/agenda-items/11%204%201%20FG_STR_1203.pdf) [Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 19. mars](https://fundur.reykjavik.is/sites/default/files/agenda-items/11%205%201%20FG_USK_1903.pdf) [Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 26. mars](https://fundur.reykjavik.is/sites/default/files/agenda-items/11%205%202%20FG_USK_2603.pdf) [Fundargerð velferðarráðs frá 19. mars 2025](https://fundur.reykjavik.is/sites/default/files/agenda-items/11%206%201%20FG_VEL_1903.pdf)
Fellt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins að taka tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að stofna starfshóp um þyrluflug á dagskrá.
Borgarfulltrúi Viðreisnar situr hjá við afgreiðslu málsins.
**Fundi slitið kl. 20:58**
Sanna Magdalena Mörtudottir Kjartan Magnússon
Líf Magneudóttir
**PDF útgáfa fundargerðar Borgarráð 01.04.2025 - prentvæn útgáfa**