Reykjavíkurborg
Forsætisnefnd - Fundur nr. 357
==
==
[Forsætisnefnd - Fundur nr. 357
](/fundargerdir/forsaetisnefnd-fundur-nr-357)
**Forsætisnefnd**
Ár 2025, föstudaginn 4. apríl, var haldinn 357. fundur forsætisnefndar. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 10:00. Viðstödd voru Sanna Magdalena Mörtudóttir, Guðný Maja Riba og Marta Guðjónsdóttir. Eftirtaldir áheyrnarfulltrúar tóku sæti á fundinum: Helga Þórðardóttir og Líf Magneudóttir. Eftirtalinn áheyrnarfulltrúi tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir. Eftirtaldir starfsmenn og embættismenn sátu fundinn: Helga Björk Laxdal og Ólöf Magnúsdóttir sem ritaði fundargerð.
**Þetta gerðist:**
Lögð fram drög að dagskrá fundar borgarstjórnar 1. apríl 2025.
- Kl 10:03 tekur Magnea Gná Jóhannsdóttir sæti á fundinum með rafrænum hætti.
- Kl 10:04 tekur Alexandra Briem sæti á fundinum.
- Kl 10:12 tekur Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir sæti á fundinum og aftengist fjarfundarbúnaði.
Forsætisnefnd óskar eftir að eftirtalin mál verði tekin á dagskrá sem sérstakir dagskrárliðir með vísan til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar:
a) Tillaga borgarfulltrúa Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna um fjölgun sumarstarfa fyrir 17 ára ungmenni
b) Umræða um þéttingu byggðar í Breiðholti (að beiðni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins)
c) Tillaga borgarfulltrúa Framsóknarflokksins um stefnumótun Reykjavíkurborgar í rafíþróttum
d) Umræða um nýtingu og staðsetningu auglýsingaskilta í borgarlandinu (að beiðni borgarfulltrúa Viðreisnar)
e) Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um jöfn opinber framlög með börnum í skólakerfinu
f) Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um íbúabyggð í Gufunesi í stað þéttingaráforma í grónum hverfum Grafarvogs
g) Umræða um bílastæðamál (að beiðni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks) MSS25010046
Lögð fram skýrsla Gallup, dags. mars 2025, um niðurstöður könnunar Gallup á trausti til borgarstjórnar.
Matthías Þorvaldsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. MSS24030071
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands ásamt áheyrnarfulltrúum Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Gríðarlega mikilvægt er að borgarstjórn starfi með þeim hætti að borgarbúar treysti henni. Sjá má að traust til borgarstjórnar minnkaði mjög á milli ára og var í lágmarki í janúar 2025, en eftir að samstarfsflokkarnir tóku við hefur traust til borgarstjórnar farið úr 9% upp í 17% á landsvísu en frá 11% upp í 22% meðal borgarbúa. Ljóst er þó að mikið verk er fyrir höndum enda leggja samstarfslokkarnir mikla áherslu á að borgarbúar treysti kjörnum fulltrúum. Sú ábyrgð að auka traust til borgarstjórnar er sameiginlegt verkefni allra kjörinna fulltrúa.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Þakkað er fyrir góða kynningu. Það er mikið áhyggjuefni að einungis 22% borgarbúa bera mikið traust til borgarstjórnar. Sú tala var 23% í fyrra. Niðurstöðurnar gefa tilefni til þess að borgarstjórn fari í stefnumótun til að vinna að auknu trausti til borgarstjórnar. Einnig er áhugavert að sjá að málefni flugvallarins og skipulagsmál í Breiðholti höfðu veruleg áhrif á traustmælingarnar en í janúar í fyrra fór traustið niður í 9% hjá borgarbúum og 5% hjá íbúum landsbyggðarinnar.
Fylgigögn
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 2. apríl 2025, varðandi erindisbréf stýrihóps um endurskoðun lögreglusamþykktar Reykjavíkur, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt MSS24090007
Fylgigögn
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 2. apríl 2025, þar sem tilkynnt er um veikindaleyfi Magnúsar Davíðs Norðdahl borgarfulltrúa. MSS25030156
Fylgigögn
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 2. apríl 2025, sbr. afgreiðslu borgarstjórnar frá 1. apríl 2025 varðandi kosningu í menningar- og íþróttaráð. MSS22060045
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillöguflutningur fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn hinn 1. apríl síðastliðinn, um að Björn Gíslason myndi taka sæti í menningar- og íþróttaráði, miðaðist að því að borgarfulltrúinn, hefði tök á því að bera mál sitt í formi kæru til innviðaráðuneytisins, sbr. 1. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 1. mgr. 109. gr. sömu laga. Í stað þess að tillagan væri einfaldlega felld með vísan til fyrirliggjandi álits, dags. 6. mars 2023, var málinu frestað. Sú afgreiðsla borgarstjórnar meinaði Birni að leita réttar síns með sanngjörnum hætti. Ástæða er til að harma þá nálgun. Eigi að síður vonast fulltrúi Sjálfstæðisflokksins að málið komist á þann rekspöl að úr þessari lagaþrætu um meint vanhæfi Björns Gíslasonar sé leyst og að úrlausnaraðilinn, innviðaráðuneytið, gefi borgarfulltrúanum, sanngjarnt tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum að.
Fylgigögn
Fram fer umræða um boðun funda og fundarsköp.
Anna Kristinsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. MSS25040015
Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að skrifstofu borgarstjórnar verði falið að koma með tillögur að endurskoðun á fundarsköpum forsætisnefndar með það fyrir augum að reglur um boðun funda verði samræmdar þeim reglum sem gilda um borgarráð.
Frestað. MSS25040028
**Fundi slitið kl. 11:45**
Sanna Magdalena Mörtudottir Alexandra Briem
Guðný Maja Riba Magnea Gná Jóhannsdóttir
Marta Guðjónsdóttir
**PDF útgáfa fundargerðar Fundargerð forsætisnefndar 04.04.2025 - Prentvæn útgáfa**