Snæfellsbær
Framkvæmdateymi Snæfellsbæjar – 4. fundur
Framkvæmdateymi Snæfellsbæjar
4. fundur
9. ágúst 2022 í Ráðhúsi Snæfellsbæjar frá kl. 09:00 – 10:39.
**Fundinn sátu**: Kristinn Jónasson, Matthías Páll Gunnarsson, Vagn Ingólfsson, Hilmar Már Arason, Baldvin Leifur Ívarsson, Ragnar Már Ragnarsson og Björn Arnaldsson. Ævar er í sumarfríi. **Fundargerð ritaði**: Lilja Ólafardóttir, bæjarritari.
==== Dagskrá: ====
- Leifur talaði um að það þyrfti að endurskoða sumarleyfi fyrir næsta ár og skipuleggja þau þannig að það séu ekki allir í fríi á sama tíma. Það ætti ekki að vera mikið mál að vera með skiptikerfi. Sumarleyfi þyrfti líka að skipuleggja strax í byrjun árs. Síðastliðinn mánuð hefur Leifur verið nánast einn í áhaldahúsinu af föstum starfsmönnum og lítið hægt að gera vegna manneklu.
- Leikskólalóðir hafa verið teknar töluvert í gegn síðasta mánuð og búið er að laga girðingu hjá leikskólanum á Hellissandi. Búið er að dúkleggja leikskólann í Ólafsvík og gera ýmsar lagfæringar sem leikskólastjóri benti á að væru nauðsynlegar.
- Þarf að fara yfir ýmislegt varðandi tjaldstæðin núna í haust. Það þarf að setjast niður með umsjónarmanni tjaldstæða fljótlega eftir að tjaldstæðin loka. Þurfum að boða fund með umsjónarmanni, Leifi og Ævari strax í október.
- Kristinn sagði frá því að framkvæmdum er lokið á Arnarstapa í kringum Bárð Snæfellsás. Búið er að bera á blettinn í kring, en því miður er fólk að ganga í kring á moldinni. Varðandi Svöðufoss, þá er búið að gera stíginn að Laxánni, frá núverandi áningarstað, og búið er að setja brúna niður. Næsta skref er að ganga frá áningarstaðnum við fossinn og að því loknu verða grindurnar settar niður á stíginn.
- Á Jaðri er búið að bera á allt tréverk úti.
- Fyrir Hinsegin hátíð Vesturlands var ýmislegt gert, m.a. málaður regnbogi á Kirkjutúnið. Það virðist skemmta ýmsum að spóla á regnboganum og reyna að eyðileggja hann, en verið er að skoða þann möguleika að setja upp eftirlitsmyndavél á vallarhúsið. Hins vegar gekk hátíðin mjög vel og ánægjulegt að sjá hversu vel íbúar Snæfellsbæjar tóku þátt og voru jákvæðir fyrir fjölbreytileikanum.
- Björn sagði frá því að verið er að vinna í lögnum við Norðurtanga í Ólafsvík og jöfnun undir þekju. Haldið áfram við úrbætur á hafnarhúsinu í Ólafsvík. Búið að leggja nýja rafmagnsheimtaug á Norðurgarð í Ólafsvík. Vegagerðin bauð út sjóvarnarverkefni í Ólafsvík og á Hellnum í sumar en ekkert tilboð kom, svo verkefnin hafa verið boðin út aftur og tilboð verða opnuð 23. ágúst með breyttum tímasetningum. Verið er að útbúa bogadreginn höfða út úr sjóvörn við Höskuldsá þar sem listaverki eftir Jo Kley verður komið fyrir. Verkið er viti, 5 metra hár, sem hogginn er í stein og á eftir að koma vel út þarna við sjóinn.
- Matthías sagði frá því að búið er að fúaverja saunatunnuna og búið er að henda öllum ónýtu mörkunum á Reynisvelli. Gámunum sem þar eru var lokað, en þeir eru töluvert skemmdir. Skólpið í sundlauginni var hreinsað. Búið er að vera að þrífa hellur í kringum íþróttahúsið. Hellurnar eru orðna gisnar og dálítið hreyfanlegar svo það þarf að sanda á milli þeirra. Sturturnar voru lagaðar í íþróttahúsinu. Verið er að lagfæra klórvélarnar í sundlauginni þessa dagana. Stiginn niður á völlinn var fúavarinn og það þarf að bera á þakkantinn á íþróttahúsinu við næsta þurra tækifæri.
- Vagn sagði frá því að anddyrið á Hellissandi er alveg að klárast. Það er búið að flísaleggja og settur hiti í gólfið. Ný útidyrahurð og flái úti. Anddyrið er mjög vel heppnað og kemur vel út. Það er að hluta búið að skipta um glugga á austurhliðinni á skólahúsinu á Hellissandi. Það gengur hins vegar ekki nægilega vel að dúkleggja og miðað við að starfsfólk mætir til vinnu í skólanum á morgun, þá eru það vonbrigði að ekki sé meira búið. Gluggarnir í Ólafsvík eru nýkomnir á svæðið og ef fæst mannskapur í gluggaskipti, þá verður það gert í haust. Það er möguleiki á að þeir sem eru að skipta um glugga á Hellissandi geti farið í verkið í Ólafsvík líka.
- Varðandi þakið á skólanum á Hellissandi, þá eru ýmsar hugmyndir þar, t.a.m. hvort sniðugra sé að setja valmaþak frekar en að setja dúk. Ragnar er að fara í þá vinnu að reikna út kosti, galla og verð. Framkvæmdirnar, hvað sem ákveðið verður, munu aldrei verða búnar í haust, svo það verður farið í bráðabirgðaframkvæmdir núna í lok sumars til að loka fyrir lekann sem er á þakinu.
- Rætt var um framkvæmdir utan húss á skólanum á Hellissandi. Verið er að hreinsa alla veggi af málningu en það gengur ekki nógu hratt. Þegar það er búið, þá þarf að fara í múrviðgerðir og mála skólann í september. Hann verður ekki látinn vera svona í vetur. Það eru miklar viðgerðir sem þurfa að fara fram áður en hægt er að mála og ýmsar skemmdir komið í ljós við hreinsun.
- Hilmar ræddi um hurð milli tveggja stofa í Ólafsvík. Búið er að fá tilboð en það á eftir að senda endanleg mál. Það tekur ekki langan tíma að setja hurðina í þegar hún kemur og það truflar ekki skólastarf.
- Rætt var um lausu skólastofurnar sem eiga að koma við Lýsuhólsskóla. Ragnar sagði frá því að verið væri að gera teikningar og skoða hvernig best væri að setja þetta hús niður og tengja það við núverandi hús. Ragnar sagði frá því að áherslan í dag væri á húsnæðið sem á að koma á Ólafsbrautina fyrir eldri borgara.
- Kristinn sagði að nú þyrfti að hugsa um þau verkefni sem nauðsynleg væru fram að áramótum og reyna að fá iðnaðarmenn í þau sem fyrst.
- Næsti fundur verður þriðjudaginn 6. september kl. 09:00.