Borgarbyggð
Fræðslunefnd Borgarbyggðar - 214. fundur
= Fræðslunefnd Borgarbyggðar =
Dagskrá
Á fundinum voru Ástríður Guðmundsdóttir, áheyrnarfulltrúi fyrir skólastjóra leikskóla, Elsa Þorbjarnardóttir, áheyrnarfulltrúi starfsmanna leikskóla, Júlía Guðjónsdóttir fyrir hönd skólastjóra í grunnskólum, Gróa Erla Ragnvaldsdóttir, f.h. kennara, Rakel Dögg Sigurgeirsdóttir f.h. foreldra, Hrafnhildur Tryggvadóttir f.h. foreldra barna í tónlistarskóla og sátu undir liðum er varða sína málaflokka.
=== 1.Fjárhagsáætlun fyrir leik-, grunn- og tónlistarkóla 2023 ===
2210111
Kynning á fjárhagsáætlun Tónlistarskóla Borgarfjarðar 2023 vegna vinnu við gerð fjárhagsáætlunar Borgarbyggðar. Til fundarins kemur Sigfríður Björnsdóttir skólastjóri tónlistarskólans.
Fræðslunefnd þakkar góða kynningu á fjárhagsáætlun Tónlistarskóla Borgafjarðar og á því metnaðarfulla starfi sem fram fer í skólanum. Í áætlun er gert ráð fyrir nokkurri hækkun á kostnaði sem er aðallega til komin af launaþróun, stjórnendakvóta og áframhaldandi uppbyggingu listfræðslu. Gert er ráð fyrir að áfram verði aukið við búnað skólans, lögð verði aukin áhersla á sýnileika starfsins, samstarf við aðra skóla í Borgarbyggð og að skólinn leiki stórt hlutverk í að aðgengi allra aldurshópa að listum og listnámi verði aukið.
=== 2.Skólastefna Borgarbyggðar ===
2101082
Kynning á Skólastefnu Borgarbyggðar 2022-2027. Ingvar Sigurgeirsson prófessor við HÍ kemur til fundarins ásamt Fjólu Benediktsdóttur sérfræðingi á fjölskyldusviði Borgarbyggðar. Ingvar mun fara yfir helstu áherslur í skólastefnunni til undirbúnings við gerð aðgerðaráætlunar sem er í höndum fræðslunefndar sbr. bókun fræðslunefndarfundar nr. 211 frá 7. september 2022.
Ingvar lagði til að stofnaður yrði starfshópur sem myndi velja punkta úr skólastefnunni til að vinna út frá og samræma aðgerðaáætlun byggða á þeim punktum. Dæmi um samsetningu slíks starfshóps væri tveir fulltrúar úr fræðslunefnd, fulltrúar tveggja skólastiga og fulltrúa frá sveitarfélaginu. Stjórnendum skóla var falið að tilnefna tvo fulltrúa og fræðslunefnd tók að sér að skipa tvo fulltrúa fyrir næsta fund fræðslunefndar. Sveitarstjóra falið að skipa fulltrúa sveitarfélagsins.
=== 3.Starfsumhverfi leikskóla - jól 2022 ===
2211019
Erindi frá leikskólastjórum í Borgarbyggð um starfsumhverfi leikskóla um leiðir til að gera starfsumhverfið meira aðlaðandi fyrir starfsfólk og sambærilegt og á öðrum skólastigum.
Fræðslunefnd hefur skilning á því að starfsumhverfi í leikskólum er þrengra heldur en í grunnskólum m.t.t. sumar- og jólaleyfa. Sá munur er nú orðinn enn meira áberandi með samræmingu leyfisbréfa kennara. Í minnisblaði leikskólastjóra eru lagðar til leiðir til samræmingar t.d. með lokun leikskóla milli jóla og nýárs. Fræðslunefnd er ekki hlynnt því að Borgarbyggð velji að fara þá leið í kringum hátíðir 2022. Starfsumhverfi í leikskólum er sameiginlegt viðfangsefni íslenskra sveitarfélaga og starfsmanna leikskóla á þeirra vegum. Fræðslunefnd bendir á að Borgarbyggð vill vera samstíga öðrum sveitarfélögum þegar kemur að kjaramálum leikskólakennara og telur að samræming milli skólastiga verði helst unnin á sameiginlegum vettvangi sveitarfélaga og stéttarfélaga starfsmanna þeirra. Til að koma til móts við hugmyndir leikskólastjóra að bættu starfsumhverfi vill fræðslunefnd að skoðaður verði möguleikinn á því að lækka eða fella niður leikskóla- og fæðisgjöld þeirra sem kjósa að senda börn sín ekki í leikskóla milli jóla og nýárs og vísar þeirri útfærslu til sveitarstjóra.
=== 4.Viðbrögð við biðlistum á leikskólum í Borgarnesi 2022 haust ===
2209164
Í framhaldi af afgreiðslu 214. fundar fræðslunefndar þá eru lögð fram frekari gögn um biðlista á Uglukletti.
Framlagðar frekari upplýsingar um stöðu biðlista. Fræðslunefnd telur æskilegt að ráðast í uppsetningu sem fyrst á færanlegum kennslustofum við leikskóla í Borgarnesi. Fræðslunefnd óskar eftir því við sveitarstjóra að kynna útfærslu á næsta fundi fræðslunefndar.
=== 5.17. júní 2023 ===
2210089
Afgreiðsla 39. fundar atvinnu-, markaðs- og menningarmálanefndar:
"Nefndin vill leggja til að fræðslunefnd kanni þann möguleika að hafa allar íþróttamiðstöðvar Borgarbyggðar opnar 17. júní árið 2023. Tíðkast hefur að sundlaugin í Borgarnesi sé lokuð á þessum degi en sundlaugarnar á Varmalandi og á Kleppjárnsreykjum opnar."
"Nefndin vill leggja til að fræðslunefnd kanni þann möguleika að hafa allar íþróttamiðstöðvar Borgarbyggðar opnar 17. júní árið 2023. Tíðkast hefur að sundlaugin í Borgarnesi sé lokuð á þessum degi en sundlaugarnar á Varmalandi og á Kleppjárnsreykjum opnar."
Fræðslunefnd telur að haga verði opnunartíma sundlauga í samræmi við líklega nýtingu og kostnað. Fræðslunefnd hefur áhyggjur af því að nýting á 17. júní réttlæti ekki kostnað. Fræðslunefnd hvetur sveitarstjóra til að skoða nánar.
=== 6.Ályktun UMSB um jafnt tækifæri til íþróttaiðkunar ===
2209225
Lögð fram eftirfarandi ályktun frá UMSB:
"Stór hópur barna í Borgarbyggð fær ekki tækifæri til að stunda íþróttir til jafns við aðra þar sem stuðningsúrræði skortir.
Við hjá UMSB skorum á sveitarfélagið að leita allra leiða til að gera þessum hópi barna kleift að taka þátt í skipulögðu íþróttastarfi á sínum forsendum.
UMSB er tilbúið að leggja hönd á plóg ef til okkar verður leitað svo að það megi verði að veruleika."
"Stór hópur barna í Borgarbyggð fær ekki tækifæri til að stunda íþróttir til jafns við aðra þar sem stuðningsúrræði skortir.
Við hjá UMSB skorum á sveitarfélagið að leita allra leiða til að gera þessum hópi barna kleift að taka þátt í skipulögðu íþróttastarfi á sínum forsendum.
UMSB er tilbúið að leggja hönd á plóg ef til okkar verður leitað svo að það megi verði að veruleika."
Fræðslunefnd er sammála bókun 131. fundar velferðarnefndar sem hljóðar svona: „Nefndin telur rétt að velferðarnefnd og fræðslunefnd sameinist um að halda fund með forsvarsmönnum deilda og félaga sem halda úti æfingum fyrir börn og unglinga til að fá sýn á hvaða lausn er möguleg til að öll börn sem vilja geti tekið þátt í skipulögðu íþróttastarfi.“
=== 7.Frumvarp til laga um skólaþjónustu ===
2210244
Mennta- og barnamálaráðherra óskar eftir samráði við hagsmunaaðila vegna undirbúnings við gerð frumvarps til laga um skólaþjónustu. Framlagt erindi frá mennta- og barnamálaráðuneytinu.
Erindi framlagt
=== 8.Beiðni um styrk - jólaútvarp 2022 ===
2211048
Framlagt erindi frá nemendafélagi Grunnskólans í Borgarnesi dags. 7. nóvember 2022 þar sem óskað er eftir styrk að upphæð 350.000 kr. til að standa straum af kostnaði við jólaútvarp á vegum NFGB.
Fræðslunefnd hvetur sveitarstjóra til þess að kanna hvort svigrúm sé innan fjárhagsáætlunar til að mæta styrkbeiðni Nemendafélagsins. Í framhaldinu er lagt til að nemendafélagið leggi fram uppgjör til sveitarfélagsins vegna rekstrar útvarpsstöðvarinnar.
Fundi slitið - kl. 18:30.