Borgarbyggð
Byggðarráð Borgarbyggðar - 620. fundur
= Byggðarráð Borgarbyggðar =
Dagskrá
=== 1.Verkefni vegna innleiðingar hringrásarkerfis ===
2111023
Kynning á stöðu mála varðandi innleiðingu á Borgað-þegar-hent-er kerfi í úrgangsmálum.
Hrafnhildur Tryggvadóttir deildarstjóri umhverfis- og framkvæmdamála kom til fundarins. Kynnt var staða mála hjá Borgarbyggð við innleiðingu á Borgað-þegar-hent fyrirkomulags við gjaldtöku við söfnun úrgangs nú um áramót tóku gildi lagabreytingar sem þar sem sveitarfélögum er skylt að búa svo um hnútana að innheimta vegna sorphirðu sé sem næst raunkostnaði. Aðlaga þarf gjaldskrár og fyrirkomulag innheimtu til samræmis við það og innleiða innheimtukerfi sem tekur mið af magni og tegund úrgangs frá hverjum og einum. Borgarbyggð skoðar nú að innleiða kerfi sem hefur verið innleitt hjá Ísafjarðarbæ og Grímsnes- og Grafningshreppi en Umhverfisráðuneytið hefur samþykkt að standa straum að kostnaði við innleiðingu sveitarfélaga að kerfinu í samstarfi við fleiri sveitarfélög. Áður en til þess kemur þarf að fara fram talning íláta hjá sveitarfélaginu og þau skráð niður á staðföng og stendur sú talning yfir þessa dagana.
=== 2.Umræða um samstarf slökkviliðs og lögreglu í húsnæðismálum ===
2212140
Tillaga um að óska eftir viðræðum við Lögregluna á Vesturlandi og FSRE um samstarf við Slökkvilið Borgarbyggðar varðandi húsnæðismál.
Fyrirsjáanlegt er að ráðast þarf í miklar endurbætur á húsnæði Slökkviliðs Borgarbyggðar við Sólbakka. Í framkvæmdaáætlun sveitarfélagsins er gert ráð fyrir að framkvæmdir vegna þeirra eigi sér stað á árinu 2025.
Húsnæði Lögreglunnar á Vesturlandi við Brákarbraut í Borgarnesi er illa staðsett til að sinna viðbragði og aðgerðastjórn á stóru landsvæði.
Að mati byggðarráðs Borgarbyggðar er full ástæða til að kanna grundvöll þess að reisa nýtt húsnæði, kaupa húsnæði eða leigja húsnæði sem hýst gæti bæði starfsemi slökkviliðs og lögreglu. Byggðarráð telur að bæði út frá hagkvæmnis- og öryggissjónarmiðum sé líklegt að ávinningur verði af því að Lögreglan á Vesturlandi og Slökkvilið Borgarbyggðar eigi með sér samstarf í húsnæðismálum. Mikilvægt er að ekki verði dregið að kanna þann valkost og felur sveitarstjóra að óska eftir viðræðum við Lögregluna á Vesturlandi og FSRE um mögulegt samstarf.
Húsnæði Lögreglunnar á Vesturlandi við Brákarbraut í Borgarnesi er illa staðsett til að sinna viðbragði og aðgerðastjórn á stóru landsvæði.
Að mati byggðarráðs Borgarbyggðar er full ástæða til að kanna grundvöll þess að reisa nýtt húsnæði, kaupa húsnæði eða leigja húsnæði sem hýst gæti bæði starfsemi slökkviliðs og lögreglu. Byggðarráð telur að bæði út frá hagkvæmnis- og öryggissjónarmiðum sé líklegt að ávinningur verði af því að Lögreglan á Vesturlandi og Slökkvilið Borgarbyggðar eigi með sér samstarf í húsnæðismálum. Mikilvægt er að ekki verði dregið að kanna þann valkost og felur sveitarstjóra að óska eftir viðræðum við Lögregluna á Vesturlandi og FSRE um mögulegt samstarf.
=== 3.Húsnæðisáætlun Borgarbyggðar - uppfærsla ===
2001144
Framlögð drög að húsnæðisáætlun fyrir Borgarbyggð. Elmar Erlendsson teymisstjóri á skrifstofu forstjóra HMS kemur til fundarins í gegnum fjarfundabúnað.
Vinna við gerð húsnæðisáætlunar fyrir Borgarbyggð stendur yfir. Áætlunin þarf að endurspegla húsnæðisþörf og horfur í húsnæðismálum í sveitarfélaginu og þörf fyrir uppbyggingu innviða til samræmis. Tilgangurinn er ekki síst að stuðla að húsnæðisöryggi í sveitarfélaginu. Sveitarstjóra er falið að halda áfram vinnu við húsnæðisáætlunina og kynna næstu drög að niðurstöðum fyrir lok janúar.
=== 4.Ljósleiðari Borgarbyggðar kynning á stöðu mála ===
2208071
Yfirferð um stöðu framkvæmda Ljósleiðara Borgarbyggðar um áramót.
Nú hafa allir tengistaðir verið tengdir við ljósleiðarakerfið að fjórum stöðum í í Norðurárdal undanskildum. Það má því segja að rétt herslumuninn vanti upp á að öllum tenginum hafi verið lokið fyrir áramót. Stefnt er að því að ljúka tengingum er tækifæri gefst á nýju ári.
=== 5.Hugmyndir frá Gunnari Jónssyni um notkun á Grímshúsi ===
2301008
Erindi frá Gunnari Jónssyni sem beint er til byggðarráðs þar sem kynntar eru hugmyndir að notkun á Grímshúsi og óskað eftir viðræðum um að taka húsnæðið á leigu.
Byggðarráð þakkar fyrir erindið og þær hugmyndir sem þar koma fram. Sveitarfélaginu berast reglulega, formlega og óformlega, erindi eða hugmyndir sem snúa að afnotum af Grímshúsi með langtímaleigu í huga. Afstaða Borgarbyggðar hefur hingað til hefur verið í samræmi við afgreiðslu frá 605. fundi byggðarráðs. Þar er vísað til þess að vinna við skipulag í Brákarey stendur nú yfir og því ekki æskilegt að gera samning til langs tíma fyrr en sú vinna er langt á veg komin. Vonandi lýkur þeirri vinnu fljótlega á nýju ári. Eigi að síður er mikilvægt að hefja undirbúning að því að finna rekstraraðila í húsið t.d. þannig að menningar- og mannlíf verði í húsinu í sumar og er sveitarstjóra falið að taka málið áfram. Áður en gengið verður til samninga við ákveðinn aðila er mikilvægt að gefa fleiri aðilum kost á að koma hugmyndum á framfæri, svo sem í kjölfar auglýsingar eftir samstarfsaðilum.
=== 6.Fjárhagsáætlun 2023 ===
2206062
Fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 hefur verið send forstöðumönnum ásamt áætlun fyrir árin 2024-2026 og þeir starfa nú samkvæmt henni. Gjaldskrár hafa sömuleiðis verið uppfærðar á heimasíðu Borgarbyggðar. Eiríkur Ólafsson sviðsstjóri fjármálasviðs kemur til fundarins og ræðir stöðu fjármála nú um áramót.
Sviðsstjóri fjármálasviðs ræddi vinnu við nýja fjárhagsáætlun og kynningu á henni fyrir forstöðumönnum. Hann fór yfir samvinnu við fjármálaráðuneyti vegna uppgjörs kostnaðar vegna móttöku flóttamanna en samþykkt á greiðslufyrirkomulagi frá ríkissjóði liggur nú fyrir. Rætt var um hlutdeild Borgarbyggðar í nýsamþykktum fjárframlögum ríkissjóðs inn í málaflokk fatlaðs fólks. Þá voru uppfærðar horfur um framlag til Borgarbyggðar frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til umræðu. Rædd var jákvæðari þróun í tekjuliðum um þessar mundir en samhliða einnig hækkun kostnaðar ekki síst launakostnaðar m.v. áætlun. Ofangreindir liðir og fleiri liðir munu hafa áhrif stöðu efnahagsreiknings, rekstur og sjóðstreymi 2022 og horfur fyrir 2023.
=== 7.Erindi frá leikskólastjórum Klettaborgar vegna húsnæðis ===
2301009
Framlagt erindi frá leikskólastjórum Klettaborgar vegna húsnæðis skólans.
Framlagt erindi frá leikskólastjórum Klettaborgar dags 21. desember 2022. Húsnæði Klettaborgar er 45 ára gamalt og viðbygging við skólann tæplega 20 ára gömul. Á árinu 2022 hefur þegar verið gjaldfærður kostnaður vegna framkvæmda við Klettaborg upp á samtals 6,6 m.kr., á húsi og lóð. Hluti viðhalds var vegna leka sem ekki fékkst bættur frá tryggingafélagi. Á yfirstandandi ári er áætlað að ráðstafa 5,0 m.kr. til viðhalds á Klettaborg. Ekki er í þeirri fjárhæð miðað við óvænt tjón líkt og átti sér stað í fyrra. M.v. það vonast byggðarráð til þess að heldur verði bætt í viðhald á húsnæði Klettaborgar á milli ára og stefnan að það viðhald verði unnið í góðu samstarfi við stjórnendur skólans, líkt og verið hefur.
Eins og fram kemur í bréfi leikskólastjóra þá fer gott starf fram í skólanum og börnum og starfsfólki líður vel.
Hreinskilið samtal á sér reglulega stað milli leikskólastjóra í Borgarbyggð, kjörinna fulltrúa og stjórnenda sveitarfélagsins t.d. um húsnæðismál. Byggðarráð telur að ákvörðun um uppbyggingu á Uglukletti njóti skilnings og að um hana sé sátt í skólasamfélaginu í Borgarbyggð. Með færanlegum kennslustofum og síðar stækkun Uglukletts er markmiðið að vinna á biðlista sem hefur verið að myndast og koma til móts við fjölgun barna á næstu árum. Sú lausn var metin hagstæðust m.t.t. stækkunarmöguleika, tækifæris til fjölgunar starfsfólks og staðsetningar í stækkandi íbúðahverfi.
Eins og fram kemur í bréfi leikskólastjóra þá fer gott starf fram í skólanum og börnum og starfsfólki líður vel.
Hreinskilið samtal á sér reglulega stað milli leikskólastjóra í Borgarbyggð, kjörinna fulltrúa og stjórnenda sveitarfélagsins t.d. um húsnæðismál. Byggðarráð telur að ákvörðun um uppbyggingu á Uglukletti njóti skilnings og að um hana sé sátt í skólasamfélaginu í Borgarbyggð. Með færanlegum kennslustofum og síðar stækkun Uglukletts er markmiðið að vinna á biðlista sem hefur verið að myndast og koma til móts við fjölgun barna á næstu árum. Sú lausn var metin hagstæðust m.t.t. stækkunarmöguleika, tækifæris til fjölgunar starfsfólks og staðsetningar í stækkandi íbúðahverfi.
=== 8.Fundargerðir Faxaflóahafna 2022 ===
2210119
Framlagðar fundargerðir Faxaflóahafna sf. nr. 220, 221, 222 og 223.
Fundargerðir framlagðar.
=== 9.Fundagerðir Orkuveitu Reykjavíkur 2022 ===
2203069
Framlögð fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur dags. 31.10.2022
Fundargerð framlögð.
Fundi slitið - kl. 11:15.