Skorradalshreppur
Skipulags- og bygginganefnd - 163. fundur
=== Skipulags- og byggingarnefnd Skorradalshrepps ===
163. fundur
==== þriðjudaginn 5. júlí 2022 kl.10:00, hélt skipulags- og byggingarnefnd Skorradalshrepps fund á Hvanneyri. Þessir sátu fundinn: Pétur Davíðsson, Ingólfur Steinar Margeirsson og Sigurbjörg Ósk Áskelsdóttir. ====
Fundargerð ritaði: Sigurbjörg Ósk Áskelsdóttir, skipulagsfulltrúi.
**Ástríður Guðmundsdóttir boðaði forföll og ekki gekk að boða varamann í hennar stað.** **Þetta gerðist:** **Almenn mál** **1. Tilkynning um fyrirhugaða niðurfellingu Fellsvegar nr. 5094-01 af vegaskrá – Mál nr. 2206022
**Skorradalshreppi hefur borist erindi frá Vegagerðinni dags. 3. júní 2022 þar sem Vegagerðin tilkynnir sveitarfélaginu um að fella eigi Fellsveg nr. 5094-01 af vegaskrá frá og með næstu áramótum þar sem Fellsvegur uppfyllir ekki lengur skilyrði vegalaga um þjóðveg. Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar er föst búseta ekki lengur fyrir hendi og uppfyllir vegurinn því ekki tilgreint skilyrði þess að teljast til þjóðvega.
Sveitarfélagið andmælti fyrirhugaðri niðurfellingu Fellsvegar nr. 5094-01, því sbr. upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands að þá er skráð föst búseta að Stóru-Drageyri. Vegurinn uppfyllir því skilyrði þjóðvega sbr. ákvæði c. liðar 2. mgr. 8. gr. vegalaga nr. 80/2007 og ber að hafa stöðu héraðsvegar áfram. Erindi hefur verið sent til Vegagerðarinnar.
**2. Umsögn um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 1112021 – Mál nr. 2201006
**Niðurstaða um ákvörðun um matsskyldu liggur fyrir hjá Skipulagsstofnun um að fyrirhuguð framkvæmd sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind eru í 2. viðauka laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Því skal framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Samkvæmt 30. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana má kæra ákvörðunina til úrskuðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kærufrestur er til 29. júlí 2022.
Skipulags- og byggingarnefnd leggur til að Sókn lögmannsstofu verði falið að meta niðurstöðu Skipulagsstofnunar og kæra niðurstöðu fyrir hönd sveitarfélagsins ef tilefni sé til þess, fyrir 29. júlí 2022, til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.
**3. Vatnshorn, stækkun friðlands – Mál nr. 2207001
**Framdalsfélagið beinir þeim tilmælum til Skorradalshrepps að hefja undirbúning að stækkun friðlands í landi Vatnshorns sbr. stefnu Aðalskipulags Skorradalshrepps 2010-2022.
Erindið lagt fram. Skipulagsfulltrúa var falið á síðasta fundi að afla upplýsinga um friðlýsingu Vatnshornsskógar og er það mál í ferli.
**4. Skógrækt í Skorradal – Mál nr. 2206021
**Skógræktin óskaði eftir því á síðasta fundi að fá að leggja fram bókun, en þar sem hún barst ekki fyrir fundarlok er hún birt hér: „Skógræktin hefur í rúma sex áratugi verið umsjónaraðili jarða og jarðahluta í Skorradal og hóf strax í upphafi friðun og skógrækt og hefur stundað það allar götur síðan. Í ASK 2010-2022 er m.a. lögð áhersla á vöxt og viðgang ræktaðra skóga og endurheimt birkiskógavistkerfis. Skógrækt er skilgreind sem landbúnaður í ASK 2010-2022. Skógræktin var í góðri trú að umræddar skógræktarframkvæmdir á Stóru Drageyri og Bakkakoti væru samkvæmt gildandi ASK Skorradalshrepps og helstu lögum og reglugerðum, skipulagi og stefnum sem stofnunin vinnur eftir. Á Stóru Drageyri er gert ráð fyrir að byggja upp fjölbreytta skógarauðlind en í Bakkakoti er gert ráð fyrir að gróðursetja birki í lundi sem muni stuðla að sjálfssáningu og þar með útbreiðslu náttúruskóga Skorradalshrepps. Skógræktin andmælir því að ekki sé hugað að skipulagi, umhverfissjónarmiðum og ásýnd lands þegar skógræktaráætlanir eru gerðar en tekur undir mikilvægi góðs samráðs á öllum stigum. Skógræktin mótmælir því að umræddar framkvæmdir séu utan fyrirhugaðs skógræktarsvæðis á Stóru Drageyri þó þær séu utan afmarkaðs skógræktarsvæðis, eins og það var í upphafi gildistíma ASK 2010-2022. Skógræktin tekur undir þau sjónarmið Skorradalshrepps að sækja þurfi um framkvæmdaleyfi fyrir Skógrækt á Stóru Drageyri og mun skila inn tilskildum gögnum sem Byggingar- og skipulagsnefnd þarf til þess að taka afstöðu til leyfisveitingarinnar. Á það einnig við um gögn sem skipulagsfulltrúi hefur óskað eftir, þ.e.a.s. CAD gögn í landhnitakerfi ISN93 sem sýni veglínu og afmörkun raskaðs svæðis í hlíðum Dragafells og vestan Dragavegar. Skógræktin mótmælir því að framkvæmdir í Bakkakoti fari inná votlendi sem hverfisvernd á landi yfir 300 m.y.s. gildir um. Skógræktin tekur undir þau sjónarmið Skorradalshrepps að sækja þurfi um framkvæmdaleyfi fyrir gróðursetningu birkis í Bakkakoti, enda er þar ráðgert að gróðursetja í allt að 370 m.h.y.s. Skógræktin mun senda inn tilskilin gögn varðandi framkvæmdaleyfisumsókn hið fyrsta. Skógræktin óskar eftir skjótri afgreiðslu á umræddum framkvæmdaleyfum til þess að forðast frekari tafir og tjón. Skógræktin mun í kjölfarið óska eftir því að jarðir og lönd í hennar umsjón verði skilgreind sem Skógræktar- og landgræðslusvæði á skipulagsuppdrætti þar sem það á við. Að lokum tekur Skógræktin fram að stofnuninni er mikið í mun að eiga í góðum samskiptum við Skorradalshrepp svo samlegðaráhrif skógræktar og annarrar landnotkunar og tækifæra fyrir íbúa og gesti dalsins verði sem allra mest.“
Skipulagsnefnd samþykkti eftirfarandi: „Á sveitarfélagsuppdrætti Aðalskipulags Skorradalshrepps 2010-2022 er fyrirhuguð skógræktarsvæði afmörkuð með grænni línu. Uppbygging skógræktar á að fara fram innan þessara svæða á skipulagstímabilinu. Afmörkunin var gerð í fullu samráði við Skógræktina við vinnslu aðalskipulagsins og ætti þeim því að vera að fullu kunnugt um stefnu sveitarfélagsins hvað þetta varðar. Í Bakkakoti er afmarkað landsvæði fyrir fyrirhugaða skógrækt. Innan þess svæðis er skilgreind hverfisvernd. Hverfisvernd þess svæðis er neðan 300 m y.s. og er ætlað að stuðla að endurheimt birkiskógarvistkerfis, en votlendi 3 ha eða stærri njóta verndar innan þess svæðis. Gróðursetning utan afmörkunar fyrirhugaðrar skógræktar í landi Bakkakots er óheimil og ekki er er hægt að veita framkvæmdaleyfi sem ekki er í samræmi við aðalskipulag. Óleyfisframkvæmdir Skógræktarinnar á Stóru Drageyri og Bakkakoti eru mjög alvarlegar, annars vegar vegna þess að ekki var sótt um framkvæmdaleyfi með tileyrandi upplýsingagjöf til sveitarfélagsins og hins vegar að framkvæmdir voru ekki í samræmi við stefnu Aðalskipulags Skorradalshrepps 2010-2022 og er vert að vísa í því samhengi á leiðbeiningar Skipulagsstofnunar um framkvæmdaleyfi https://www.skipulag.is/skipulagsmal/framkvaemdaleyfi/ og eins reglur aðalskipulags um skógrækt á bls. 82 í greinargerð aðalskipulag http://skipulagsaaetlanir.skipulagsstofnun.is/skipulagvefur/DisplayDoc.aspx?itemid=07635324660176634930 . Sveitarfélagið tekur undir orð Skógræktarinnar um að mikilvægt sé að eiga í góðum samskiptum, en bendir á að afgreiðsla sveitarfélagsins ber að vera í samræmi við stefnu þess sem birtist í aðalskiplagi. Sveitarfélagið er aftur á móti tilbúið til að eiga í samtali við Skógræktina og óskar eftir því að Skógræktin leggi fram stefnu sína um framtíðaruppbyggingu skógræktar í dalnum þ.e.a.s. hvernig afmörkun skógræktarsvæða gæti litið út til næstu 12 ára, að teknu tilliti til þeirrar hverfisverndar sem í gildi er sbr. aðalskipulagi.“
**Framkvæmdarleyfi** **5. Bakkakot, skógrækt framkvæmdaleyfi – Mál nr. 2206023
**Óskað er eftir framkvæmdaleyfi sbr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 til skógræktar í landi Bakkakots. Um er að ræða gróðursetningu 50 þús. birkiplantna á 36 ha svæði. Svæðið er að mestu fyrir ofan 300 m y.s. Ræktunaráætlun var lögð fram með umsókn. Áætlað er að verklok verði 2025. Skógrækt umfram 20 ha er háð framkvæmdaleyfi, einkum m.t.t. brunavarna sbr. Aðalskipulagi Skorradalshrepps 2010-2022 (ASK). Svæðið sem um ræðir er utan afmörkunar fyrirhugaðrar skógræktar og í innsta hluta Skorradals er land ofan 300 m y.s. með hverfisvernd er varðar vistkerfisvernd votlendis sbr. ASK.
Skipulags- og byggingarnefnd hafnar umsókn um framkvæmdaleyfi þar sem framkvæmd samræmist ekki Aðalskipulagi Skorradalshrepps 2010-2022.
**6. Stóra Drageyri, skógrækt framkvæmdaleyfi – Mál nr. 2207002**
Óskað er eftir framkvæmdaleyfi sbr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 til skógræktar í landi Stóru Drageyrar. Um er að ræða fjölnytjaskóg með blönduðum trjátegundum á 188,7 ha svæði. Helstu markmið skógræktarinnar er kolefnisbinding, jarðvegsvernd, nytjar auk þess sem hann mun nýtast til útivistar. Um er að ræða svæði sem er utan afmörkunar um fyrirhugaða skógrækt í landi Stóru Drageyrar sbr. Aðalskipulagi Skorradalshrepps 2010-2022 (ASK). Hluti svæðis er með hverfisvernd votlendis sbr. ASK.
Skipulags- og byggingarnefnd hafnar umsókn um framkvæmdaleyfi þar sem framkvæmd samræmist ekki Aðalskipulagi Skorradalshrepps 2010-2022.
Fleira ekki gert.
Fundi slitið kl. 12:00.