Borgarbyggð
Velferðarnefnd Borgarbyggðar - 142. fundur
= Velferðarnefnd Borgarbyggðar =
Dagskrá
=== 1.Trúnaðarbók 2023 ===
2305037
Lagðar fram afgreiðslur starfsmanna frá síðasta fundi og afgreiddar umsóknir um fjárhagsstyrk.
Óheimilt er að birta afgreiðslu nefndarinnar og starfsmanna opinberlega og því eru afgreiðslur skráðar með formlegum hætti í trúnaðarbók. Það er skýr reglurammi sem nefndin og starfsmenn félagsþjónustu starfa eftir. Reglurnar má finna á heimasíðu sveitarfélagsins.
=== 2.Janus heilsuefling ===
2306047
Þann 16. október sl. var undirritaður samstarfssamningur við Janus heilsueflingu. Með samningnum verður þátttakendum boðið upp á tveggja ára markvissa heilsueflingu með það að markmiði að bæta heilsutengdar forvarnir, efla hreyfifærni þátttakenda og bæta afkasta getu, heilsu og lífsgæði þeirra sem taka þátt. Búið er að gera úttekt á íþróttamiðstöðinni með það fyrir sjónir hvaða tækjakostur þarf að vera til staðar. Tillögur liggja nú fyrir og er gott samstarf við forstöðumann íþróttamannvirkja hvernig unnið verður úr þeim. Þann 30. nóvember nk. verður haldinn kynningarfundur fyrir alla þá sem hafa áhuga á að fræðast um verkefnið. Einnig hefur verið opnað fyrir skráningu í verkefnið á heimasíðu Janusar. Janus hefur nú auglýst eftir fagaðila til að sinna þessu verkefni.
Velferðarnefnd fagnar því að búið sé að skrifa undir samning við Janus endurhæfingu. Lögð er áhersla á gott samstarf við íþróttamiðstöðina og að kappkostað verði að allur aðbúnaður þar sé eins góður og hægt er. Einnig vonast nefndin eftir því að góð kynning og samstarf við hagsmunaaðila skili sér í góðri þátttöku í verkefninu. Fyrirhugað er að halda kynningarfund þann 30. nóvember.
=== 3.Breytingar á barnaverndarlögum og uppbyggingu barnaverndarþjónustu sveitafélaga ===
2201148
Um síðustu áramót fengu Borgarbyggð og Hvalfjarðvarsveit undanþágu frá Mennta- og barnamálaráðuneytinu er snéri að viðmiði varðandi fjölda íbúa þegar kemur að umdæmi barnaverndarþjónustu. Í svarbréfi frá ráðuneytinu kom fram að á næsta ári yrðu gerðar ríkari kröfur og að sveitarfélögin þyrftu að sýna fram á að þau hafi leitað eftir samstarfi um barnaverndarþjónustu í stærri umdæmum. Í ljósi þessa er verið að horfa til samstarfs annars vegar við barnaverndarþjónustu Snæfellinga sem telur sveitarfélögin Snæfellsbæ, Eyja- og Miklaholtshrepp, Grundafjörð og svo Stykkishólm, og hins vegar við Akranes. Fyrir liggur að Akraneskaupstaður uppfyllir þau skilyrði er fjallað er um, en ljóst er að minni sveitarfélög á Vesturlandi þurfi að taka upp sameiginlega barnaverndarþjónustu svo skilyrði séu uppfyllt.
Velferðarnefnd felur félagsmálastjóra og sviðsstjóra Fjölskyldusviðs að halda áfram samtali við nærliggjandi sveitarfélög með það að markmiði að uppfylla þau skilyrði sem þurfa að vera fyrir hendi þegar kemur að barnaverndarþjónustu á Íslandi.
=== 4.Barnavernd - bakvaktir ===
1610007
Þann 19. október sl. var kynnt fyrir Byggðarráði hugmynd að nýju bakvaktarfyrirkomulag fyrir barnavernd í Borgarbyggð. Á þeirri kynningu var lögð áhersla á mikilvægi þess að hafa bakvakt utan hefðbundins vinnutíma og að starfsmenn myndu skipta á milli sín vöktum. Með slíkri breytingu væri verið að styðja við uppbyggingu á barnaverndarþjónustu á svæðinu og styrkja starfmsenn í starfi sínu. Meðfylgjandi eru drög að fyrirkomulagi auk þess hvernig samningur við starfsmenn sem tækju að sér að sinna bakvakt kæmi til með að líta út. Við gerð þessa samnings hefur verið horft til nágrannasveitarfélaga.
Drög að nýju verklagi lagt til kynningar fyrir Velferðarnefnd. Nefndin telur að með því að koma bakvakt á sé verið að styrkja og efla mikilvægt starf auk þess að auka stuðning við börn og fjölskyldur þeirra í sveitarfélaginu. Velferðarnefnd vísar erindinu til frekari kynningar og skoðunar hjá Byggðarráði og svo til samþykktar hjá Sveitastjórn.
=== 5.Notendaráð og samráðshópur í málefnum fatlaðs fólks ===
2003205
Á fundi sveitastjórnar þann 12. janúar sl. var samþykkt að skipa Guðveigu Eyglóardóttur, Bjarney Bjarnadóttur og Thelmu Harðardóttur í notendaráð í málefnum fatlaðs fólks. Óskað hefur verið eftir tilnefningum frá Landssamtökum Þroskahjálpar og Öryrkjabandalagi Íslands. Ekki hafa borist neinar tilnefningar frá hagsmunasamtökum fatlaðs fólks.
Velferðarnefnd lýsir yfir áhyggjum af því að ekki sé búið að skipa í ráðið af hálfu Landssamtaka Þroskahjálpar og Öryrkjabandalagi Íslands. Nefndin leggur ríka áherslu á að þessir aðilar komi að notendaráðinu og verður reynt eftir fremsta megni að fá tilnefningar svo ráðið verði fullskipað.
=== 6.Gjaldskrár félagsþjónustu 2023 ===
2212030
Lagt er til að gjaldskrá félagsþjónustunnar hækki um 5% í samræmi við aðra hækkun á gjaldskrám í sveitarfélaginu.
Velferðarnefnd samþykkir fyrir sitt leyti að hækkun á gjaldskrá félagsþjónustunnar hækki um 5%. Erindinu vísað til afgreiðslu sveitastjórnar.
Fundi slitið - kl. 10:30.