Fjarðabyggð
Bæjarstjórn - 363
Haldinn í fundarsal á bæjarskrifstofunum að Hafnargötu 2 á Reyðarfirði,
16.11.2023 og hófst hann kl. 16:00
Fundinn sátu: Birgir Jónsson forseti bæjarstjórnar, Jón Björn Hákonarson aðalmaður, Þuríður Lillý Sigurðardóttir aðalmaður, Hjördís H. Seljan Þóroddsdóttir 1. varaforseti bæjarstjórnar, Stefán Þór Eysteinsson aðalmaður, Ragnar Sigurðsson aðalmaður, Kristinn Þór Jónasson aðalmaður, Þórdís Mjöll Benediktsdóttir aðalmaður, Sigurjón Rúnarsson varamaður, Gunnar Jónsson embættismaður, Þórður Vilberg Guðmundsson embættismaður.
Fundargerð ritaði: Þórður Vilberg Guðmundsson, forstöðumaður stjórnsýslu- og upplýsingamála
|Forseti bæjarstjórnar óskaði í upphafi fundar eftir afbrigðum frá boðaðri dagskrá og inn á fundinn yrði tekið málið Kosning forseta bæjarstjórnar 2023 - 2024. Var það samþykkt samhljóða|
Dagskrá:
|Forseti bæjarstjórnar mælti fyrir tillögu að bókun bæjarstjórnar vegna stöðu mála í landbúnaði:|
Bæjarstjórn Fjarðabyggðar lýsir yfir þungum áhyggjum af þeirri stöðu sem upp er komin í landbúnaði. Lækkun á afurðaverði, kostnaðarhækkanir, hækkun vaxta á liðnum árum, erfiðar aðstæður til nýliðunar, takmarkað aðgengi að lánsfé á hagstæðum vöxtum til fjárfestinga og fjöldi annarra samverkandi þátta hefur sett framtíð atvinnugreinarinnar í algert uppnám. Forsendur til rekstrar eru því brostnar, nauðsynleg nýliðun viðvarandi vandamál og tækifæri til fjárfestinga lítil sem engin sem hamlar um leið allri nýsköpun í greininni.
Eins og fram kemur í Svæðisskipulagi Austurlands er landbúnaður mikilvæg grunnstoð í atvinnulífi Austurlands, eins og víðar um land, og því mikilvægt að umgjörð atvinnugreinarinnar verði styrkt. Bæjarstjórn telur mikilvægt að horft sé til þess að ná fram hækkuðu afurðaverði, tryggja greiðan aðgang að þolinmóðu lánsfé til fjárfestinga og auk þess að útfæra lán í anda hlutdeildarlána til að fá aukinn kraft í nýliðun. Horfa þarf til þess að styrkja samkeppnisstöðu greinarinnar og tryggja að gæðaeftirlit með innflutningi og innlendri framleiðslu sé hið sama. Miklar kröfur hafa verið settar um aðbúnað búfjár til matvælaframleiðslu á Íslandi síðustu ár með tilheyrandi kostnaði hjá bændum en án þess að fjármagn hafi fylgt.
Landbúnaður er jafnframt byggðarmál og mikilvægt að sveitir landsins verði áfram í byggð enda blómlegar sveitir eitt helsta kennileiti íslenskrar þjóðar.
Bæjarstjórn Fjarðabyggðar skorar því á stjórnvöld að koma nú að krafti inn í greinina og stuðla að því að landbúnaður búi við eðlilegt rekstrarumhverfi til að fyrirbyggja fyrirsjáanlegt hrun í greininni með ófyrirséðum afleiðingum fyrir matvælaöryggi þjóðarinnar. Slíkt öryggi þarf að tryggja með aðgerðum en ekki orðum
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 16:45